Þingflokkur Framsóknar óskar eftir því að stofnaður verði þverpólitískur starfshópur um málefni barna og ungmenna. Þetta tilkynnti Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður flokksins, á blaðamannafundi í Alþingi í dag ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknar. Hópnum yrði falið að móta grunn að fjármagnaðri aðgerðaáætlun í málefnum barna og hann skipaður fulltrúum allra þingflokka og helstu fagstofnana líkt og Kennarasambands Íslands, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Barna og fjölskyldustofu, ríkislögreglustjóra og öðrum viðeigandi sérfræðingum. „Það er ansi margt sem þarf að gera hvort sem það tengist skólaumhverfinu, kennurunum, starfsumhverfi, menntun barna, börnunum sjálfum eða heimilunum,“ segir Ingibjörg. „Hins vegar er það þannig að það hefur gerst of hægt og við finnum til ábyrgðar og viljum kalla til þess að það verði þverpólitísk samstaða um málefni barna og ungmenna til þess einmitt að við getum ráðist í þessi verkefni sem fyrir liggja,“ segir hún. Telur komið að ögurstundu Kallað var eftir samstöðu milli flokka í bréfi sem sent var á alla formenn þingflokkanna í gær. Ingibjörg segir það undir öðrum flokkum komið hvort tekið verði vel í hugmyndina. Í bréfinu var lögð sérstök áhersla á að að 40 prósent kennara láti af störfum á næstu 10 árum vegna aldurs og að hlutfall kennara undir 30 ára aldri sé mjög lágt samanborið við aðrar Evrópuþjóðir. Þá sé starfsumhverfi kennara víða ótryggt, mannekla veruleg, hlutfall ófaglærðra of hátt, stoðþjónusta ófullnægjandi og skortur á námsgögnum. „Við leggjum áherslu á það að þetta gerist sem allra fyrst. Nú er þriðji ráðherrann að taka við málaflokknum á einu ári og við vitum það að það tekur tíma fyrir ráðherra að koma sér inn í málaflokkinn,“ segir Ingibjörg sem vísar til þess að Inga Sæland tók nýverið við sem menntamálaráðherra af Guðmundi Inga Kristinssyni sem áður hafði tekið við embætti af Ásthildi Lóu Þórsdóttur. „Við lítum svo á að það sé hreinlega komið að ögurstundu og við megum engan tíma missa þannig að því fyrr því betra,“ segir Ingibjörg. Finna sjálf til ábyrgðar Framsóknarflokkurinn fór með stjórn í menntamálaráðuneytinu í um átta ár frá árinu 2017. Fyrst var Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra frá árinu 2017 til 2021 og svo Ásmundur Einar Daðason fram til ársins 2024. Ingibjörg segir flokkinn því finna til ábyrgðar. „Þess vegna erum við hér í dag,“ segir Ingibjörg. „Við viljum setja þessi mál á dagskrá aftur. Það er ýmislegt sem ávannst í tíð Framsóknar í þessu ráðuneyti. Margt sem var gert mjög vel og margt sem hefði mátt ganga hraðar og betur fyrir sig. En eins og ég sagði þá tekur þetta lengri tíma heldur en eitt eða tvö kjörtímabil.“