Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum segir nýja tungumálastefnu ekki útiloka ráðningu erlendra lækna. Hann telur raunhæft að í framtíðinni geti allt framlínustarfsfólk talað og skilið íslensku en að stefnan verði ekki innleidd á augabragði. „Það sem maður þarf að hugsa í þessu er að þegar maður setur stefnu þá tekur tíma að útfæra hana. Í dag stólum við á erlent starfsfólk. Við erum ekki sjálfbær með heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi,“ sagði Ólafur Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, í Morgunútvarpinu á Rás 2. Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, yfirlæknir heilsugæslu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, lýsti áhyggjum af því í gær að stefnan væri ekki nægilega vel útfærð. Framsetning tungumálastefnu Landspítalans valdið þeim misskilningi að íslenskukunnátta sé skylda fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða reiðir sig mikið á erlent vinnuafl líkt og margar aðrar heilbrigðisstofnanir. Ólafur segir að stefnan feli í sér kröfu um ákveðna íslenskuhæfni fyrir fastráðið starfsfólk en ekki þá sem koma hingað til skamms tíma eða í tímabundnar afleysingar. „Sem dæmi stólum við á erlenda hjartaskurðlækna eins og staðan er í dag. Þeir koma kannski í hálfan mánuð í einu og þá erum við náttúrulega ekki að gera kröfu um íslenskukunnáttu hjá þeim, heldur mega þeir tala ensku. Ef þú ert fluttur til Íslands og ætlar að búa hérna og vinna á Landspítalanum þá þarftu að ná þessari hæfni.“ Íslenskukennsla hafi staðið til boða fyrir starfsfólk Landspítala en nú eigi að efla hana til muna. Hún verði hins vegar innleidd í skrefum á næstu árum. Súsanna Björg segir ómögulegt að fullmanna Heilbrigðisstofnun Vestfjarða án erlendra lækna. Mikilvægara sé að læknar séu til staðar en að þeir tali íslensku. „Maður skilur það,“ segir Ólafur. „En ef viðkomandi ætlar að vera hluti af samfélaginu og búa hérna í einhvern tíma þá auðvitað ætti hann að læra íslensku.“ Hlutfall erlends starfsfólks hafi hækkað jafnt og þétt síðustu ár án þess að markviss stefna um íslenskukunnáttu væri innleidd. Ólafur segir bætta íslenskukunnáttu starfsfólks auka öryggi sjúklinga. „Ef samskiptin eru þannig að læknar, hjúkrunarfræðingar eða heilbrigðisstarfsfólk skilur ekki sjúklingana eða öfugt, eða starfsfólkið skilur ekki hvort annað, þá er það öryggisógn. Ekki starfsfólkið sjálft heldur verða skilningurinn og samskiptin að vera þannig að allar upplýsingar komist til skila.“ Ný tungumálastefna Landspítalans felur í sér kröfu um íslenskukunnáttu fyrir fastráðið starfsfólk en ekki fólk sem starfar aðeins tímabundið hér á landi, segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Stefnan verði innleidd í skrefum næstu ár.