Sú ákvörðun stjórnvalda í Íran að loka fyrir aðgang að internetinu í landinu er til marks um hversu örvæntingarfull þau eru. Þetta segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum. „Hvaða nútímaþjóðfélag er starfrækt án Internetsins í dag? Það sýnir að þeir töldu að hættan væri svo mikil að það þyrfti að grípa til þessara aðgerða,“ segir Magnús í samtali við fréttastofu. „Sjaldan hefur staða klerkastjórnarinnar staðið eins tæpt og nú.“ Stjórnvöld brugðust hægar við en áður Magnús segir mótmælin sem nú geisa í landinu umfangsmeiri en oft áður. Í fyrri mótmælum hafi stjórnvöld brugðist hraðar við og nýtt valdatæki á borð við leynilögreglu til að kveða mótmæli niður. „Núna brugðust þau kannski aðeins hægar við og voru kannski aðeins að reyna að koma til móts við mótmælendur með því að veita þeim efnahagslega styrki og þess háttar. Það hefur kannski leitt til þess að mótmælin hafa breiðst út mun hraðar en oft áður,“ segir Magnús. Óttuðust svipaðar aðgerðir og í Venesúela Viðbrögð stjórnvalda litast líka af aðgerðum Bandaríkjanna í Venesúela, segir Magnús. „Þeir sjá kannski fram á að álíka aðgerð gæti átt sér stað hjá þeim. Þannig að þeir voru mjög nervösir um hvernig ætti að bregðast við.“ Stjórnvöld hafi þannig ekki viljað vekja of mikla athygli á málefnum Írans með því að bregðast af fullum þunga eftir að mótmælin hófust á síðustu dögum síðasta árs. Kergjan sem liggur að baki mótmælunum snýst í grunninn um versnandi efnahagsástand. Gjaldmiðill landsins hefur hríðfallið og stjórnvöld afnámu nýlega fyrirkomulag sem fól í sér niðurgreiðslu gjaldeyriskaupa til að kaupa nauðsynjar frá útlöndum. Þetta hefur orsakað vöruskort í verslunum. Efnahagsþvinganir og vatnskortur gert íbúum lífið leitt Efnahagsástandið er á meðal þeirra þátta sem skýri veika stöðu stjórnarinnar. „Í öðru lagi er Ali Khameini kominn á þann aldur að hann hefur kannski ekki sama stuðning og orku til að stýra landinu með sama hætti og oft áður. Í þriðja lagi er óánægjan mun almennari heldur en oft hefur verið áður.“ Landið sé þar að auki einangraðra á alþjóðavettvangi eftir að hafa misst stuðning Sýrlandsstjórnar og Hezbollah-stjórnarinnar í Líbanon. Þá hafi efnahagsþvinganir haft veruleg áhrif á millistétt og efri millistétt í landinu. „Þau eiga varla í sig og á,“ segir Magnús. „Og til að hella olíu á eldinn þá er þvílíkur vatnsskortur í Íran sem hefur gert lífið bara mjög erfitt sálfræðilega, efnahagslega, menningarlega í Íran.“ Dauðsföllin fleiri en í fyrri mótmælum Magnús segir stjórnvöld hafa nýtt sér fréttir frá Bandaríkjunum og Ísrael þar sem fjallað er um stuðning þar við mótmælendur í Íran. Þau hafi notað þær sem átyllu til að drepa mótmælendur. Fólk sem þyrpist út á götur landsins til að mótmæla séu föðurlandssvikarar sem mótmæli guði. Því sé dauðarefsing talin eðlileg viðurlög. Mannréttindasamtök telja tölu látinna vera í þúsundum. „Þar af leiðandi höfum við séð tölur sem við höfum ekki séð áður hvað varðar dauðsföll í Íran í svona svipuðum mótmælum,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson.