Bræðslurnar komnar á rafmagn en flutningskostnaður hrekur Eyjamenn út í olíubrennslu

Fiskimjölsverksmiðjur ganga flestar fyrir rafmagni í vetur í stað olíu eftir að framboð á raforku jókst. Formaður Félags fiskimjölsframleiðenda segir að öfugsnúið sé að nýr rafstrengur og nýir rafskautakatlar í Vestmannaeyjum verði líklega ekki notaðir vegna hækkaðra flutningsgjalda. Bræðslurnar eru í startholunum og fyrsti kolmunnafarmur ársins barst til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gær. Polar Amaroq kom með tæp 2.000 tonn sem veiddust sunnan við Færeyjar. Þá gætu loðnuveiðar hafist bráðum þó að enn sé óljóst hve stór vertíðin verður. Fiskimjölsverksmiðjur bræða uppsjávarafla í lýsi og mjöl og þurfa mikla orku. Þær hafa síðustu ár þurft að nota olíu vegna skorts á rafmagni. Nú hefur það breyst því lón vatnsaflsvirkjana fylltust í sumar. Þá hefur orkunotkun stóriðju minnkað vegna lokunar PCC á Bakka og bilunar hjá Norðuráli á Grundartanga. Raforkuverð hefur lækkað en Eyjamenn borga meira fyrir flutning Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri hjá Síldarvinnslunni og formaður Félags fiskimjölsframleiðenda, segir verksmiðjurnar hafa byrjað að færa sig yfir á rafmagn um mitt síðasta ár. Verð hafi lækkað og orkan sé nú keypt til skemmri tíma í stað samninga um skerðanlega orku sem áður tíðkuðust. Skortur á slíkri orku varð til þess að verksmiðjurnar færðu sig aftur yfir á olíu. „Ég reikna með að allflestar verksmiðjurnar muni nota rafmagn þessa vertíðina og allt þetta ár nema kannski einna helst Vestmannaeyjar því þar er búið að verðleggja þetta út af markaðnum. Þeir fóru í það að styrkja flutningskerfið sem er frábært að hafi verið gert og þurfti sannarlega að gera í Vestmannaeyjum, en við það þá breytast skilyrðin í þeim töxtum sem verksmiðjurnar geta fengið orkuna á og verðmiðinn er einfaldlega orðinn það hár fyrir flutninginn að það er orðið mun hagstæðara að keyra á olíunni og ég reikna með að menn geri það,“ segir Hafþór. Verðmiðinn er einfaldlega orðinn það hár fyrir flutninginn að það er orðið mun hagstæðara að keyra á olíunni og ég reikna með að menn geri það Fjárfestingar í orkuskiptum nýtist ekki sem skyldi Bræðslur brenna mikilli olíu, um 25 milljónum lítra árið 2024. Því minnkar losun mikið þegar þær geta notað rafmagn í staðinn. Það er líka innlend orka, tekjurnar fara til fyrirtækja sem framleiða og flytja orkuna. Hafþór segir vont ef fjárfestingar í Eyjum nýtast ekki til orkuskipta. „Þetta er gríðarleg losun og þetta eru svolítið öfug orkuskipti miðaða við þær fjárfestingar sem eru í gangi í Vestmannaeyjum. Þar er verið að setja upp nýja rafskautakatla og það er spurningarmerki hvort þeir verði hreinlega gangsettir á þessari vertíð eða einhvern tíma ef við náum ekki að snúa eitthvað ofan af þessu. Þetta snertir hitaveituna í Eyjum líka. Það var sannarlega þörf á þessu til að styrkja kerfið en við þurfum eitthvað að endurskoða verðflokkana sem eru í gangi þarna,“ segir Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri hjá Síldarvinnslunni og formaður Félags fiskimjölsframleiðenda. Það var sannarlega þörf á þessu til að styrkja kerfið en við þurfum eitthvað að endurskoða verðflokkana sem eru í gangi þarna.