Inga veitti samtökum milljóna-styrk sem matsnefnd taldi „ekki réttu aðilana“

Í lok nóvember birtist tilkynning á vef félags-og húsnæðismálaráðuneytisins þar sem greint var frá því að Inga Sæland, þáverandi ráðherra, hefði veitt fjórum verkefnum styrk uppá samtals 60 milljónir. Öll áttu þau að miða að því að tryggja þolendum ofbeldis um allt land aðgengi að stuðningi og ráðgjöf. Sambærilegir styrkir voru veittir í fyrra upp á þrjátíu og fimm milljónir. Inga flutti sig sem kunnugt er yfir í mennta-og barnamálaráðuneytið um helgina. Kvennaathvarfið fékk hæsta styrkinn Styrkirnir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins. Þegar þeir voru auglýstir var lögð á áhersla á að styrkja ætti verkefni sem byggðust á samstarfi margra gegn ofbeldi. Hæsta styrkinn fengu Samtök um kvennaathvarf til að reka athvarf samtakanna á Akureyri á þessu ári eða samtals þrjátíu milljónir og Bjarkarhlíð - fimmtán milljónir til að tryggja reksturinn og sjö milljónir til að veita þolendum ofbeldis á Vesturlandi og Vestfjörðum stuðning og ráðgjöf. Athygli vakti að Samtök um karlaathvarf fengu þrjár og hálfa milljón. Þeir sem eru þar í forsvari hafa verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarin ár; Huginn Þór Grétarsson, sem sótti um styrkinn, hefur höfðað fjölda meiðyrðamála, meðal annars gegn finnskri barnsmóður sinni sem var sýknuð á öllum dómstigum. Og háskólakennarinn Kristinn Sigurjónsson sem tók við styrknum rataði í fréttir þegar hann var látinn fara frá Háskólanum í Reykjavík vegna ummæla sinna um konur í lokuðum Facebook-hópi sem nefndist Karlmennskuspjallið. Kristinn krafði skólann um bætur fyrir dómi en laut í lægra haldi á öllum dómstigum. Fengu styrk til að veita þolendum stuðning Huginn sagði við vef Morgunblaðsins þegar ljóst var að samtökin höfðu fengið styrk að þau hefðu fundað með starfsmönnum ráðuneytisins í lok september og bent á ójafnræði í umfjöllun um heimilisofbeldi og stuðning við þolendur þess. Umsóknin barst svo í október og fór eins og aðrar til matsnefndar. Spegillinn óskaði eftir öllum gögnum frá ráðuneytinu varðandi styrkveitinguna, öllum umsóknum og umsögn matsnefndar. Í umsókn Samtaka um karlaathvarf kom fram að það væri nauðsynlegt að almenningur og yfirvöld væru upplýst að karlmenn væru stór hluti þolenda, þau ætluðu að standa fyrir rannsókn á slíku ofbeldi, styðja við karlkyns þolendur með fræðslu, veita þeim ráðgjöf og bjóða upp á úrræði. Styrkinn fengu þau svo til að veita karlkyns þolendum ofbeldis í nánum samböndum stuðning, ráðgjöf og þjónustu, meðal annars aðgengi að sálfræði- og lögfræðiþjónustu þeim að kostnaðarlausu. „Ekki réttu aðilarnir“ Sérstök matsnefnd sérfræðinga í ráðuneytinu, fór yfir allar umsóknir og skilaði tillögum til ráðherra; hún lagði meðal annars til að lögreglan á Suðurlandi fengi sjö og hálfa milljón fyrir Öruggara Suðurland - verkefni sem matsnefndin taldi að styrkja ætti enn frekar og gera það að fyrirmyndarverkefni sem hægt væri að yfirfæra yfir á aðra landshluta. Matsnefndin vildi ekki styrkja verkefni Afstöðu um jafningjastuðning og þróun nýrra úrræða fyrir gerendur ofbeldis innan íslensks fangelsiskerfis og Samtök um karlaathvarf. Um umsókn Afstöðu sagði nefndin að þetta væri ekki forgangsverkefni þótt umsóknin væri vel unnin. Um umsókn Samtaka um karlaathvarf sagði nefndin að umsóknin væri sú eina sem næði sérstaklega til karla sem yrðu fyrir ofbeldi í nánum samböndum, málaflokkur sem hefði ekki fengið mikla athygli þótt vitað væri að karlar jafnt sem konur gætu búið við slíkt. „Við teljum þessa aðila þó ekki vera þá réttu til þess að framkvæma verkefnið sem felst meðal annars í að gerð verði rannsókn,“ sagði í umsögninni. Verkefni lögreglu látið víkja Frekar ætti að verja tíu milljónum af öðrum fjárlagalið til að rannsaka umfang og eðli ofbeldis sem karlar yrðu fyrir í nánum samböndum, fá til þess fagaðila sem gæti haft samráð við hagsmunasamtök, þar á meðal Samtök um karlaathvarf. Eftir að ráðherra hafði farið yfir tillögurnar breyttust tillögurnar ; Styrkurinn til Kvennathvarfsins á Akureyri hækkaði um fjórar milljónir, úr 26 í 30 og Samtök um karlaathvarf fengu styrk upp á þrjá og hálfa milljón. Þar sem potturinn var sextíu milljónir þurfti að finna þessar milljónir og það varð til þess að Öruggara Suðurland fékk engan styrk þrátt fyrir lof matsnefndarinnar. Vonbrigði segir lögreglustjóri Arndís Soffía Sigurðardóttir, settur lögreglustjóri á Suðurlandi og verkefnastjóri Öruggara Suðurlands, viðurkennir í samtali við Spegilinn að það hafi verið vonbrigði. Enginn geti þó gengið að neinu sem vísu eða eigi tilkall til eins. Hún er stolt af verkefninu, þarna hafi myndast kærkominn samráðsvettvangur fyrir ríki, sveitarfélög og lögreglu. Meðal þeirra sem vottuðu ágæti verkefnisins voru sviðsstjóri velferðarsviðs hjá Hornafirði og deildarstjóri velferðarþjónustu í Árborg sem sagði samvinnuna hafa reynst afar dýrmæta. Arndís Soffía segir að reynt verði að halda verkefninu á floti eitthvað fram eftir ári, meðal annars með því að sækja um styrk til landshlutasamtaka. Af framkvæmd rannsóknar á umfangi og eðli ofbeldis sem karlar verða fyrir í nánum samböndum eins og matsnefndin lagði til, er það að frétta, samkvæmt svari ráðuneytisins, að hún er til skoðunar.