Hæstiréttur tekur fyrir mál Vélfags

Hæstiréttur hefur ákveðið að taka fyrir mál fyrirtækisins Vélfag gegn íslenska ríkinu. Málið mun því ekki fara fyrir Landsrétt en íslenska ríkið var sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok nóvember. Íslenska ríkið lagðist ekki gegn því að málið yrði sent beint til Hæstaréttar. Vélfag hefur krafist þess að ákvörðun Arion banka að frysta fjármuni félagsins verði snúið við. Þá hefur einnig verið tekist á um synjun utanríkisráðuneytisins um að Ivan Nicolai Kaufmann fái að setjast í stjórn félagsins þrátt fyrir að vera meirihlutaeigandi í félaginu. Fram hefur komið að utanríkisráðuneytið hefur undir höndum upplýsingar sem tengja Kaufman við rússnesku öryggisþjónustuna FSB. Vélfag byggir umsókn sína á því að niðurstaða í málinu hafi mikið fordæmisgildi og almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna. Því var Hæstiréttur sammála. Því til stuðnings segir Vélfag málið vera það fyrsta þar sem tekist er á um túlkun og beitingu á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Fyrirtækið varð það fyrsta á Íslandi til að vera beitt efnahagsþvingunum eftir að gripið var til refsiaðgerða gegn því þar sem það er enn talið tengjast rússnesku fyrirtæki sem er hluti af skuggaflota Rússa. Vélfag telur að dómur Héraðsdóms hafi verið rangur að því leytinu til að þar hafi verið sagt að það væri í verkahring Arion banka að aflétta frystingu fjármuna fyrirtækisins. Því þyrfti að höfða mál gegn bankanum en ekki íslenska ríkinu. Vélfag telur að þetta fari í bága við reglur stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar að fela einkaaðilum eftirlits- og ákvörðunarvald um íþyngjandi aðgerðir sem ríkið hafi skuldbundið sig til að beita innan lögsögu sinnar.