Seðlabankastjórar um víða veröld lýsa yfir fullum stuðningi við Jerome Powell, bankastjóra bandaríska seðlabankans. Hann er til rannsóknar hjá alríkissaksóknara. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna stýrir rannsókninni sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagst ekkert vita af. Í yfirlýsingu sem meðal annars er undirrituð af bankastjórum Englandsbanka, evrópska seðlabankans og seðlabönkum Danmerkur og Svíþjóðar segir að Powell hafi starfað af heilindum. Hann hafi einblínt á hlutverk sitt og almannahag. Þar segir að sjálfstæði seðlabanka sé nauðsynlegt til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, bæði fyrir fjármálakerfi og almenning. Rannsóknin er sögð tengjast vitnisburði Powells fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fundi um endurbætur á húsnæði seðlabankans. Þeir Trump og Powell hafa lengi eldað grátt silfur saman. Forsetinn hefur gagnrýnt störf seðlabankastjórans opinberlega og meðal annars kallað hann þöngulhaus. Lítið hefur farið fyrir svörum Powells við gagnrýni Trumps þangað til á sunnudag. Þá sagði hann sjálfstæði bandaríska seðlabankans í húfi. Hann sagði málið snúast um hvort bankinn gæti enn tekið stýrivaxtaákvarðanir byggðar á gögnum og efnahagsástandi hvers tíma eða hvort peningastefna bankans ætti að stjórnast af pólitískum þrýstingi eða hótunum.