Olíuflutningaskipið Marinera, sem siglir undir rússneskum fána og Bandaríkjaher lagði hald á í síðustu viku, er komið til Skotlands. BBC greinir frá þessu . Skipið er í höfn í Moray Firth í norðurhluta Skotlands. Þar eru einnig dráttarbátar og skip bandarísku landhelgisgæslunnar. BBC hefur eftir talsmanni breskra stjórnvalda að skipið hafi komið inn í breska lögsögu til að fylla á nauðsynlegar birgðir, þar á meðal mat og vatn fyrir áhöfnina, fyrir áframhaldandi för. Talsmaðurinn tók ekki fram hvert skipið héldi næst. Bandaríkjaher tók yfir skipið 7. janúar um 200 kílómetra frá ströndum Íslands. Skipið var innan íslenskrar efnahagslögsögu en á alþjóðlegu hafsvæði. Það var upphaflega á leið til Venesúela. Bandarísk stjórnvöld sögðu skipið hafa verið notað til olíuflutninga sem fara þvert á bandarískar refsiaðgerðir. Bandaríkjaher veitti skipinu eftirför í um það bil tvær vikur áður en liðsmenn fóru um borð og tóku yfir stjórn þess. Bandaríkjaher naut liðsinnis breska flughersins í aðgerðinni. Talsmaður Varnarmálaráðuneytis Bretlands sagði að það væri forgangsverkefni að raska og fæla frá skuggaflota Rússlands. „Samhliða bandamönnum okkar erum við að auka viðbrögð við skuggaflotanum, og við höldum því áfram.“