Forsætisráðherra segir forgangsmál að koma samgönguáætlun í gegn á vorþingi sem hefst á morgun. Þingið þarf að afgreiða mörg stór og mögulega umdeild mál. Ríkisstjórnin samþykkti í morgun breytingar á þingmálaskrá sinni sem gerðar verða opinberar í fyrramálið en forsætisráðherra segir að þar verði engra stórtíðinda að vænta. „Þessi ríkisstjórn ætlar sér að klára samgönguáætlun á vorþingi. Innviðafélagið líka sem er auðvitað lykilbreyta í því að standa undir stórframkvæmdum í landinu og byrja aftur að bora,“ segir Kristrún Frostadóttir. Það á enn eftir að afgreiða mörg mál frá haustþingi auk þess sem þingmálaskráin boðar fjölda mála með vorinu. Mörg þeirra gætu hæglega staðið í stjórnarandstöðunni. Mál eins og lagareldi, búvörulögin, Airbnb-frumvarpið, strandveiðar og fjármálaáætlun, svo fátt eitt sé nefnt. Gamlir draugar eins og bókun 35 er annað slíkt mál og er Miðflokkurinn líklegur til að verja tugum klukkustunda í ræðustól vegna þess. Líti þingsályktunartillaga um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið dagsins ljós líkt og utanríkisráðherra hefur boðað er hún líkleg til að hljóta sömu örlög. Útlendingar og orka áberandi Útlendingamál verða fyrirferðarmikil og reynir dómsmálaráðherra að koma í gegn málum eins og brottfararstöð, afturköllun verndar og dvalarleyfum. „Mér hefur fundist skilaboð stjórnarandstöðu vera algjörlega skýr um það að þau ætla að styðja okkur í þessum málum sem við erum með á dagskrá.“ Umhverfis-, orku og loftlagsráðherra verður sömuleiðis tíður gestur í þingsal, vegna mála sem eiga að einfalda regluverk í orkumálum. „Þar erum við að tala um breytingar á lögum um rammaáætlun, við erum að tala um að koma skikki á og skapa betri umgjörð utan um vindorkunýtingu, ég er að leggja það fram núna í febrúar. Svo erum við með tvo rammaáætlunarpakka á þessu þingi sem þarf að klára,” segir Jóhann Páll Jóhannsson. Málamiðlun um búvörulög Það er hins vegar Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sem ríður á vaðið á morgun. Hún mælir fyrir frumvarpi sem gerir stjórnvöldum kleift að stöðva viðskiptagjörninga erlendra aðila gangi þeir gegn þjóðaröryggi og allsherjarreglu og svo breytingum á búvörulögum. Upphaflega stóð til að afturkalla í heild umdeildar breytingar sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili og undanskildu afurðastöðvar samkeppnislögum. Gengið er mun skemur í þetta skipti og verður hluti greinarinnar enn undanþeginn samkeppnislögum. „Það er áfram undanþága með mjólkina og síðan fyrir sauðféð og annað slíkt en við erum að taka til dæmis hvíta kjötið út,“ segir Hanna Katrín.