Skemman í Gufunesi var metin óhæf fyrir tveimur árum

Skemman sem brann í Gufunesi í gær taldist ekki hæf til afnota í úttekt slökkviliðsins árið 2024. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerði athugasemdir við ófrágengna rafmagnstöflu í skemmunni sem brann í Gufunesi í gær. Reykjavíkurborg bar ábyrgð á úrbótum og vék frá húsaleigulögum við útleigu skemmunnar. Reykjavíkurborg bar ábyrgð á úrbótum og vék frá húsaleigulögum við útleigu skemmunnar. Altjón varð á skemmunni eftir að eldur kom upp í henni í gærkvöld. Meðal þess sem brann voru leikmunir úr þáttaröðunum True Detective, Felix og Klöru, Dönsku konunni og Vigdísi. Þá brann einnig nokkuð af minjum frá hernámsárunum. Munirnir voru að mestu leyti í eigu kvikmyndafyrirtækisins TrueNorth sem leigði skemmuna af Reykjavíkurborg. Í leigusamningi segir að ástand hússins sé ekki að öllu leyti í samræmi við húsaleigulög og almennar venjur um ástand leiguhúsnæðis. Rafmagn í ólagi Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gerði úttekt á brunavörnum skemmunnar eftir ábendingar fyrir tæpum tveimur árum. „Þá er þessi skemma tóm og við gerum nokkrar athugasemdir við flóttaleiðir og annað, eins og rafmagnsmál,“ segir Birgir Finnsson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu. „En fórum svo ekkert dýpra í það þar sem þetta var gömul skemma sem var ekki ætluð til notkunar fyrir einhverja starfsemi þar sem fólk væri til staðar.“ Spurður hvaða athugasemdir hafi verið gerðar við rafmagnið segir Birgir að það hafi einfaldlega verið í ólagi og niðurstaðan var að skemman var metin óhæf til afnota í því ástandi sem hún var þá. Óvíst um úrbætur Vitið þið hvort úrbætur voru gerðar? „Nei, við fylgjum þessu máli ekkert meira eftir, þarna er um að ræða geymsluhúsnæði sem við forgangsröðum ekki hjá okkur.“ Hver ber ábyrgð á að úrbætur séu gerðar eftir að slökkviliðið gerir svona athugun? „Eigandi ber alltaf ábyrgð á brunavörnum í sínu húsnæði,“ segir Birgir. Engin svör fengust frá Reykjavíkurborg um hvort ráðist hefði verið í úrbæturnar. Að sögn lögreglu sem rannsakar eldsupptök eru núna í upphafi rannsóknar engar vísbendingar um hvað hafi getað kveikt eldinn, en þar er allt til skoðunar.