Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkið brotlegt gegn konu sem höfðaði mál á grundvelli óréttlátrar málsmeðferðar á kynferðisbrotamáli. Ríkið var sýknað í málum fjögurra annarra kvenna. Lögfræðingur kvennanna sem höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu segir niðurstöðuna grafalvarlega fyrir íslenska ríkið. Ríkið var dæmt til að greiða konu skaðabætur vegna óréttlátrar málsmeðferðar. Lögfræðingur kvennanna segir það grafalvarlegt að íslenska ríkið sé dæmt með þessum hætti. Hann segir dóminn vera mikilvægan áfanga fyrir íslenska réttarkerfið og að það sé alvarlegt að íslenska ríkið hafi nú í tvígang verið dæmt brotlegt. Hann segir ríkið hafa brugðist konunum. Níu konur kærðu íslenska ríkið með aðstoð Stígamóta fyrir nokkrum árum fyrir að hafa brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Konurnar höfðu allar kært nauðgun, heimilisofbeldi eða kynferðislega áreitni til lögreglu en mál þeirra felld niður. Dómur féll í tveimur málum í ágúst og var ríkið dæmt brotlegt í öðru þeirra. Sýknað í fjórum af fimm málum Íslenska ríkið var sýknað í fjórum málum, en í því fimmta var það dæmt brotlegt gegn áttunda grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Þolandinn í því máli var sextán ára þegar hún kærði kynferðisbrot til lögreglu. Í niðurstöðu dómstólsins er það gagnrýnt að rannsókn lögreglu hafi ekki beinst að því hvort þolandi hafi veitt geranda samþykki sitt eður ei. Lögfræðistofan Réttur hefur sinnt málum kvennanna. Sigurður Örn Hilmarsson, lögfræðingur, segir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins vera alvarlega og dapurlega. „Þetta er grafalvarlegt og auðvitað mjög dapurlegt. Tala nú ekki um sko eins og síðasta haust, þar sem mál einfaldlega fyrnast í meðferðum lögreglunnar. Í þessu máli er nálgun lögreglunnar og rannsakenda svo þröng, og saksóknara, að það er í raun og veru útilokað að málið hefði náð fram að ganga. Og Mannréttindadómstóllinn er mjög gagnrýninn á það.“ Íslenska ríkinu er gert að greiða konunni skaðabætur. En þessi mál sem töpuðust, hefur það einhverja þýðingu? „Já, það hefur bara umtalsverða þýðingu. Ég held að öll þessi vegferð hafi verið mjög mikilvæg, það hefur aðeins svona hrist upp í kerfinu. Menn hafa endurskoðað verklag að einhverju leyti og rýnt í það,“ segir Sigurður Örn. Lagabreytingar árið 2016 2016 var gerð breyting á almennum hegningarlögum þegar sérstakt refisákvæði um ofbeldi í nánum samböndum var lögfest. Refsingar fyrir alvarlegt og ítrekað heimilisofbeldi voru þyngdar, lagaramminn skýrður og réttarstaða fórnarlamba bætt. Sigurður Örn segir mál sem þessi vera í sífelldri þróun og að löggjöfin hafi tekið miklum framförum. „Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að allir sem starfa innan kerfisins fari að og fylgi uppfærðu kerfi, uppfærðum reglum. Og vinni að öllum þessum málum af vandvirkni og heilum hug.“ Hann vonar að niðurstaða dómsins verði til þess að svona mál endurtaki sig ekki.