Í janúar 2021 fékk Guðmundur símtal þar sem honum var sagt að mögulega væri kominn gjafi fyrir aðgerðina sem hann hafði beðið eftir, þar sem græða átti hann báða handleggi frá öxl. „Ég var svona mátulega bjartsýnn en svo þarna seinna um kvöldið kemur staðfesting að þetta er bara að fara að gerast. Þeir hringja 11. janúar og ég fer inn 12. janúar í undirbúning og svo bara vakna ég með nýjar hendur,“ segir hann. „Hvernig er að vakna með handleggi af annarri manneskju fasta við þig?“ Daginn fyrir aðgerðina voru einmitt 23 ár frá vinnuslysinu sem varð til þess að Guðmundur missti báða handleggina. Bataferlið var mjög krefjandi fyrstu vikurnar. „En bara eftir tvo til þrjá daga fór mér samt að líða þannig að þetta væru mínir handleggir og það var stærsta spurningin sem ég hafði áður, hvernig er að vakna með handleggi af annarri manneskju fasta við þig?“ segir hann. Í dag eru fimm ár síðan Guðmundur Felix Grétarsson fékk grædda á sig nýja handleggi í aðgerð sem markaði tímamót í læknavísindum. Guðmundur segir síðustu fimm ár hafa verið baráttu en vel þess virði. „En með tímanum þá breytast handleggirnir svolítið. Liturinn aðlagast restinni af líkamanum og hárin á höndunum breyttust og urðu eins og restin af líkamanum á mér, þannig þær urðu alltaf meira og meira mínar sko,“ segir Guðmundur. Fengið vott af sjálfstæði Guðmundur segir að síðustu fimm ár hafi ekki alltaf verið auðveld, líkaminn hefur hafnað handleggjunum og hann gengist undir þónokkrar aðgerðir, ásamt að fá gífurlega steraskammta. „Sterarnir hafa svo slæm áhrif á bein að mjöðmin á mér fór og ég þurfti að fá nýja mjöðm núna í desember. Þannig þetta er búið að vera pínu barátta en samt þess virði,“ segir hann. „Það sem ég hef fengið í staðinn er smá vottur af sjálfstæði. Ég get borðað sjálfur, baðað mig, burstað í mér tennurnar og klætt mig og svona. Þær eru mjög takmarkaðar miðað við fullfrískar hendur en miðað við það sem ég hafði þá hefur þetta náttúrulega breytt öllu.“ Málningarrúllur teipaðar við hendurnar Hann sé alltaf að læra betur á handleggina þrátt fyrir skerta virkni í framhandleggjum og höndum. „En ég hef til dæmis verið að mála og svona hérna heima. Ég hef gaman af því að vinna með höndunum og ég var að vonast til þess að geta gert meira. En til dæmis með að mála sko, þá teipar konan mín mig bara fastan við spítuna og þá get ég rúllað veggi og svona.“ „Ég hefði viljað hafa sterkara grip og geta gert aðeins meira en það hefði bara verið bónus,“ segir hann. Fær skilaboð frá fólki allsstaðar að úr heiminum Aðgerðin markaði tímamót í læknavísindum. Meiri en fimmtíu læknar og hjúkrunarfræðingar tóku þátt í henni og hún tók 14 klukkustundir. Guðmundur segist stoltur af að hafa verið hluti af þessu. „Ég er enn að fá skilaboð frá fólki allstaðar að úr heiminum sem hefur verið að fylgjast með þessu og er í svipaðri aðstöðu. Þetta gefur rosalega mörgum von.“ Spennandi tímar framundan Og hann er bjartsýnn fyrir komandi tímum. Nýlega stofnaði hann fyrirtæki og vonast til að komast úr örorkuástandinu, eins og hann orðar það. „Ég veit svo sem ekkert hvernig það fer. Ég bara að byrja með þetta en ég er að fara flytja inn og selja búnað fyrir snjallheimili. Ég er í rauninni núna, 28 árum seinna, að fara aftur inn í fagið sem ég lærði upphaflega, þar sem rafvirkjunin nýtist mér. Og það væri ekkert að gerast nema fyrir þetta,“ segir Guðmundur Felix.