Bill og Hillary Clinton, fyrrum forseti og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segjast ekki ætla að verða við stefnu þingnefndar Bandaríkjaþings til að fá þau til að bera vitni í rannsókn á máli barnaníðingsins Jeffrey Epstein. James Comer, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fulltrúadeildar þingsins, segist ætla að hefja ferli til að ákæra hjónin fyrir vanvirðingu við þingið í næstu viku nema þau hlýði stefnunni. „Enginn er að saka Clinton-hjónin um neitt glæpsamlegt,“ sagði Comer við fjölmiðla á þriðjudag. „Við erum bara með nokkrar spurningar.“ Bill Clinton birti opið bréf frá þeim Hillary til Comers í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) á þriðjudaginn. „Lögfræðileg greining sem unnin var af tveimur lögmannsstofum og afhent þér í gær tekur skýrt fram að stefnur þínar eru lagalega ógildar,“ skrifuðu þau í bréfinu. „Þú heldur því fram að stefnur þínar séu friðheilagar þegar þeim er beint gegn okkur, en samt þagðir þú þegar núverandi forseti tók, sem fyrrverandi forseti, sömu afstöðu fyrir rétt rúmum þremur árum.“ This is not about Right or Left, it’s about Right and Wrong. pic.twitter.com/IVQh3yHEGG — Bill Clinton (@BillClinton) January 13, 2026 Clinton-hjónin vísa þarna til þess að Donald Trump neitaði að bera vitni við þingið í nóvember 2022 og vísaði meðal annars til þess að hann nyti friðhelgi sem fyrrverandi forseti. „Við brýnum fyrir þér að birta þessa greiningu fyrir almenningi til þess að sýna hvernig þetta er enn eitt dæmið um frjálslega vanrækt á landslögum,“ héldu hjónin áfram. „Á sama tíma hefur þú ekki gert neitt í eftirlitshlutverki þínu til að knýja á dómsmálaráðuneytið að fylgja lögum og birta öll Epstein-skjölin, þar á meðal öll gögn sem tengjast okkur eins og við höfum opinberlega farið fram á.“ Dómsmálaráðuneytið hefur aðeins birt um 1% af gögnum sínum um mál Epsteins, þrátt fyrir að samþykkt hafi verið lög sem kváðu á um birtingu allra gagnanna fyrir 19. desember síðastliðinn. Í þeim gögnum sem hafa verið birt er þónokkuð af ljósmyndum af Bill Clinton.