Að minnsta kosti 2.571 manns hafa farist í fjöldamótmælunum sem standa nú yfir í Íran. Þetta kom fram í frétt írönsku mannréttindasamtakanna Human Rights Activists News Agency (HRANA), sem eru staðsett í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeirra mati hafa andlát 2.403 mótmælenda verið staðfest, þar á meðal tólf barna. Á hinn bóginn hafa að minnsta kosti 147 meðlimir í öryggissveitum og almennir stuðningsmenn stjórnarinnar verið drepnir og níu almennir borgarar sem ekki voru þátttakendur í mótmælunum. Þá telur HRANA að minnst 18.434 manns hafi verið handteknir í mótmælunum og 1.134 hafi særst alvarlega. Þetta eru mun fleiri en hafa farist í mótmælum í Íran í marga áratugi. Til samanburðar má nefna að eitthvað um 551 mótmælandi var drepinn í Mahsa Amini-mótmælunum árið 2022. Fjöldi hinna látnu nú kann að vera enn meiri, en erfitt er að sannreyna hann í ljósi þess að stjórnvöld hafa lokað á netaðgang í Íran. Fréttastofurnar CBS News og Iran International (sem er tengd stjórnvöldum í Sádi-Arabíu) telja að minnst 12.000 manns hafi verið drepnir í yfirstandandi mótmælum. Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur heitið írönsku mótmælendunum stuðningi, viðurkenndi á þriðjudag að erfitt væri að áætla nákvæman fjölda þeirra sem hefðu verið drepnir. „Enginn hefur getað gefið mér nákvæma tölu,“ sagði hann við fjölmiðla. Sjálf stjórnvöld Írans hafa viðurkennt að mikið mannfall hafi orðið í mótmælunum en hafa haldið því fram að hinir látnu séu fyrst og fremst meðlimir í öryggissveitum og almennir borgarar sem mótmælendur hafi drepið. „Gerið staðfastar og skilvirkar ráðstafanir til að hefna píslarvottanna og þeirra sem hafa verið drepnir,“ sagði íranski ríkissaksóknarinn Gholam-Hossein Mohseni-Ejei á mánudaginn.