Sanae Takaichi forsætisráðherra Japans ætlar að rjúfa þing og boða til snemmbúinna þingkosninga í febrúar. Japanska viðskiptablaðið Nikkei Shimbun hefur eftir nafnlausum heimildarmönnum innan ríkisstjórnarinnar og Frjálslynda lýðræðisflokksins, flokks Takaichi, að hún hyggist greina stjórn flokksins frá ákvörðun sinni í dag. Eins og stendur er ríkisstjórnin aðeins með nauman meirihluta á neðri deild japanska þingsins. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn tapaði sætum á báðum deildum þingsins í kosningum árin 2024 og 2025, sem leiddi til þess að Shigeru Ishiba sagði af sér sem flokksleiðtogi og Takaichi tók við. Ríkisstjórn Takaichi mælist með um 70 prósenta stuðning í skoðanakönnunum og líklegt er að forsætisráðherrann vonist til að nýta sér fylgið til að styrkja þingmerihlutann. Ef Takaichi rýfur þing þegar það kemur saman 23. janúar koma kosningarnar til með að vera haldnar 8. febrúar. Ef sú verður raunin þarf mögulega að fresta umræðu um fjárlög fyrir árið þar til í apríl. Stjórnin yrði þá mögulega að setja fjáraukalög.