Trump um afstöðu Grænlendinga: „Það er þeirra vandamál“

Málefni Grænlands verða rædd á fundi utanríkisráðherra Danmerkur, Grænlands og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í dag. Varaforseti Bandaríkjanna verður einnig á fundinum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst yfir að hann vilji ná yfirráðum á Grænlandi. Atlantshafsbandalagsþjóðir hafa brugðist við þessu með viðræðum um mögulegar aðgerðir til að auka viðveru bandalagsins á norðurslóðum. Grænlendingar hafa komið því skýrt á framfæri að þeir vilji áfram vera hluti af Danmörku, nú síðast á sameiginlegum blaðamannafundi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Jens Frederik Nielsen, formanns landsstjórnar Grænlands, í gær. Þar sögðu þau að Grænland og Danmörk standi sterk saman gegn ásælni Bandaríkjaforseta í Grænland. Nielsen sagði valið á milli Danmerkur og Bandaríkjanna einfalt. Grænland veldi Danmörku, NATO og Evrópusambandið og vildi ekki vera í eigu Bandaríkjanna. Ekki kæmi til greina að ganga á fund Bandaríkjanna án Danmerkur. Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fréttamenn í gærkvöld og var beðinn um viðbrögð við orðum Nielsens. „Nú, það er þeirra vandamál. Það er þeirra vandamál. Ég er ósammála honum. Ég veit ekki hver hann er, veit ekkert um hann en þetta á eftir að verða mikið vandamál fyrir hann.“