Lóa D. Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon sem hafa rekið verslanir undir nafni Lindex, Gina Tricot og Mango hafa samið um að reka verslanir undir nafni og með vörum frá Kappahl og Newbie. Stefnt er að því að átta Kappahl-verslanir og ein Newbie-verslun verði opnaðar hér á næstu misserum. Þær verða í helstu verslunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni. Lóa og Albert Þór hafa rekið tíu Lindex-verslanir frá 2011. Í síðustu viku var greint frá því að svo yrði ekki lengur. Albert sagði þá að ekki hefði tekist að framlengja sérleyfissamning um rekstur þeirra. Sama dag var tilkynnt að annað fyrirtæki, S4S, tæki við rekstrinum. Lindex-verslanir þeirra starf út janúar og í framhaldinu opnar S4S verslanir undir sama heiti. S4S rekur meðal annars Ellingsen, Steinar Waage, Ecco og Kaupfélagið. Kappahl var stofnað í Svíþjóð 1953 og rekur 345 verslanir í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Póllandi og Bretlandi. Þar er boðið upp á föt fyrir konur, karla og börn. Newbie er barna- og lífsstílsvörumerki Kappahl.