Frakkar opna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi

Frakkar ætla að opna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi í næsta mánuði. Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, segir í viðtali við RTL ákvörðunina hafa verið tekna síðasta sumar við heimsókn Emmanuels Macrons Frakklandsforseta til Grænlands. Barrot hafi síðan heimsótt landið í ágúst til að hefja undirbúning fyrir opnun sendiskrifstofunnar. Stefnt er að því að hún taki til starfa 6. febrúar. Hann segir þetta senda pólitísk skilaboð um vilja Frakka til að hafa meiri viðveru á Grænlandi, þar á meðal í vísindalegu samhengi. Hann bætir því við að Grænlendingar vilji ekki vera í eigu eða lúta yfirráðum Bandaríkjanna. Þeir hafi valið Danmörku, NATO og Evrópusambandið. Grænlenska landsstjórnin kom þeim sjónarmiðum síðast á framfæri í gær, á sameiginlegum blaðamannafundi Jens Frederik Nielsen, formanns landsstjórnar Grænlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist ósammála afstöðu Grænlendinga og að hún væri þeirra vandamál, þegar hann ræddi við fréttamenn í gærkvöld. Hann hefur ítrekað lýst yfir að hann vilji ná yfirráðum á Grænlandi. Málefni Grænlands verða rædd á fundi utanríkisráðherra Danmerkur, Grænlands og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í dag. Varaforseti Bandaríkjanna verður einnig á fundinum.