Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur undirritað sameiginlega yfirlýsingu fjölda seðlabankastjóra sem lýsa yfir stuðningi við Jerome Powell, bankastjóra bandaríska seðlabankans. Powell er nú til rannsóknar hjá alríkissaksóknara en hann og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa átt í útistöðum í nokkurn tíma. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna stýrir rannsókninni. Greint var frá því í gær að ellefu seðlabankastjórar hefðu gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem stuðningi við Powell var heitt. Ásgeir er meðal fjögurra seðlabankastjóra sem hafa bætt nafni sínu við yfirlýsinguna en einnig eru það seðlabankastjórar Noregs, Suður-Afríku og Nýja-Sjálands. Í yfirlýsingunni segir að Powell hafi starfað af heilindum, einblínt á hlutverk sitt og almannahag. Sjálfstæði seðlabanka sé nauðsynlegt til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, bæði fyrir fjármálakerfi og almenning.