Segir Ingu Sæland skorta læsi á málefni ráðuneytisins

Inga Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, vill fara nýjar leiðir í lestrarkennslu barna. Hún segir að menntakerfið hafi brugðist börnum landsins og að byrjendalæsisstefna, sem tekin var upp á sínum tíma, sé orsök þess að fimmtíu prósent drengja útskrifist með lélegan lesskilning. Rannveig Oddsdóttir, dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, hefur rannsakað þróun lestrarfærni barna í 1. og 2. bekk í byrjendalæsisskólum. Hún segir að umræðan snúist oft of mikið um niðurstöður PISA-kannana en samfélagið hafi breyst. Rannveig var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hvað er byrjendalæsi? Rannveig segir byrjendalæsi vera kennsluaðferð sem gangi út á að ná utan um alla þætti í lestrarkennslu. Til að verða vel læs þurfi að kenna fleiri þætti en stafi og hljóð, svo sem ritun og málskilning. Um þriðjungur skóla hér á landi er með byrjendalæsisstefnu og Inga hefur sagt að stefnan sé orsök lélegs lesskilnings meðal drengja. Rannveig segir að miklar samfélagsbreytingar og tæknibreytingar hafi áhrif á lestrargetu barna. Miklar breytingar hafi orðið á því hvernig við notum tungumál og lestur í okkar daglega lífi. „Það hafa í raun og veru orðið miklu meiri breytingar utan skólans heldur en innan hans. Það er í raun og veru verið að kenna lestur á svipaðan hátt og hefur alltaf verið gert en það er svo margt annað sem hefur breyst.“ Samráð við kennara er lykilatriði Inga hefur nefnt verkefni á borð við Kveikjum neistann sem arftaka byrjendalæsisstefnunnar. Auk þess hefur hún talað um að horfa til finnska skólakerfisins sem fyrirmyndar. Rannveig segir að Kveikjum neistann sé fínt verkefni þar sem metnaðarfullir kennarar vinna í nánu samstarfi við foreldra og samfélagið allt. Hún segir þó skort á upplýsingum og rannsóknum. Aðalmálið er, segir Rannveig, að kennarar hafi trú á því sem þeir eru að gera og hún segir það lykilatriði að hafa samráð við kennara þegar ákveðið er hvaða stefna skal notuð við kennslu. Sorglegt að ráðherra tali niður til kennara Rannveig segir það sorglegt að upplifa að talað sé niður til kennara. Hún segir að Inga fái kennara ekki á sitt band með sinni orðræðu. „Þá er hún í raun og veru að segja að 1/3 skóla og kennara á yngsta stigi á Íslandi séu bara á villigötum og séu að nota hérna einhverja stórhættulega aðferð. Það er ekki til þess að fá fólk með sér eða gefa góð skilaboð út á vettvanginn.“ Inga hefur talað mikið um að horfa til Finnlands sem fyrirmynd en Rannveig segist ekki átta sig á hvað hún sér fyrir sér þar. Rannveig segir að finnska skólakerfið einkennist ekki af miðstýringu heldur sé kennurum og skólum treyst til að móta sína stefnu og sinna kennslu. Mikil virðing sé borin fyrir kennurum í Finnlandi og aðsókn mikil í kennaranám. Að mati Rannveigar hefur orðræða Ingu borið þess merki að hana skorti læsi á málaflokkinn sem hún hefur nú tekið við. „Þegar maður tekur við ráðherraembætti þá nýtir maður þetta læsi til að lesa sér til um málin,“ segir Rannveig Oddsdóttir. Dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri segir orðræðu Ingu Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, bera þess merki að hana skorti læsi á málefni ráðuneytisins. Hún segist ekki átta sig á orðum ráðherra um finnsku leiðina í skólum.