„Við erum að fá inn þarna einn ansi góðan leikmann“

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur leik á EM á föstudag þegar liðið mætir Ítalíu. Vignir Stefánsson, handboltasérfræðingur og lýsandi, segir æfingaleikina tvo um helgina hafa komið nokkuð vel út fyrir liðið. Ísland spilaði tvo æfingaleiki um helgina. Liðið vann Slóveníu 32-36 á föstudag en laut svo í lægra haldi gegn Frökkum á sunnudaginn, 31-29 í jöfnum leik. „Mér leist mjög vel á liðið, það kom mjög vel út. Byrjuðum af miklum krafti á móti Slóveníu og í raun og veru klárum þann leik í fyrri hálfleik. Komandi inn í Frakkaleikinn fannst mér við bara matcha Frakkana nokkuð vel. Svona umfram væntingar miðað við það að við séum að spila við Evrópumeistarana,“ segir Vignir um leikina tvo. Vignir Stefánsson, handboltasérfræðingur og lýsandi, segir það geta munað miklu að vera komin aftur með Ómar Inga Magnússon á fullt í íslenska landsliðinu. Ísland spilaði tvo æfingaleiki um helgina og hefur leik á EM á föstudag. Hann segir lítinn æfingaleikjabrag hafa verið á Frakklaleiknum í troðfullri höll og miklum látum. „Mikið tuð í dómurunum og svona sem oft er látið kyrrt liggja í æfingaleikjum.“ Stærsti munurinn komandi inn í Evrópumótið núna, miðað við Heimsmeistaramótið fyrir ári, sé þó að vera komin aftur með Ómar Inga Magnússon inn í liðið en hann var ekki með á síðasta móti vegna meiðsla. „Mér finnst það aðeins gleymast í umræðunni að við erum að fá inn þarna einn ansi góðan leikmann til baka inn í stórmót sem er mjög gott.“ Vignir tekur það líka jákvætt út úr leikjunum að báðir markverðirnir, Viktor Gísli Hallgrímsson og Björgvin Páll Gústavsson, hafi spilað og náð í fínustu markvörslu. „Þannig það eru svona mörg góð teikn á lofti.“ En er eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af fyrir fyrstu leiki Íslands á mótinu, gegn Ítalíu og Póllandi? „Áhyggjurnar beinast í rauninni bara aftur að sama hlut og frá í mótinu í fyrra. Það að þegar við lendum í vandræðum sóknarlega þá vantar okkur kannski örlítið meiri skotógn.“ Vignir vonast þó eftir því að Ómar og Haukur Þrastarson geti tekið þann bolta að einhverju leyti, sérstaklega ef Þorsteinn Leó Gunnarsson verður ekki orðinn nógu heill til að spila á mótinu. Ísland spilar leiki sína í riðlinum 16., 18. og 20. janúar gegn Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi. Allir leikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2.