„Ég held að vorið verði átök. Átök um stór mál. Kannski ekki átök alla daga en ég held að við séum að horfa á erfið mál á Alþingi. Ég held að það reyni á ráðherrana í ríkisstjórninni, það reynir á forsætisráðherrann og það reynir á samningatækni þeirra, hæfileika og reynslu til þess að byggja brú,“ segir Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, sem lengi hefur greint stöðuna á þingi. Í Þetta helst í dag er farið yfir stöðu mála á þingi og vorið framundan. Seinni hálfleikur er að hefjast á þingi. Nefndir þingsins komu saman núna á mánudaginn og klukkan þrjú í dag er fyrsti þingfundur á nýju ári sem hefst með óundirbúnum fyrirspurnatíma. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, býst við átökum í vor. Mörg stór mál framundan Ríkisstjórnin boðaði 157 mál í þingmálaskrá sem lögð var fram í haust. Þegar litið er á stöðu mála nú má sjá að 37 frumvörp hafa verið samþykkt, 56 bíða fyrstu umræðu, 37 eru í nefnd, 7 bíða annarrar umræðu og eitt þriðju umræðu. Þá hafa fimm þingsályktunartillögur verið samþykktar. „Það er heldur betur verk að vinna,“ segir Jóhanna og bætir við að afgreiða þurfi mörg stór mál. Í því samhengi nefnir hún til að mynda frumvörp dómsmálaráðherra um útlendingamál, forsetafrumvarp forsætisráðherra, samgönguáætlun, búvörulög, bókun 35 og þá stendur til að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. „Það má heldur ekki gleyma að á þessu vormisseri er kjördæmavika í lok febrúar og síðan verður gert hlé á þingstörfum frá byrjun maí fram yfir sveitarstjórnarkosningar 16. maí, það er hefð fyrir því í þingstörfum það ár sem sveitarstjórnarkosningar fara fram. Þannig að það gildir að hafa hraðar hendur,“ segir Jóhanna. Staðan erfið í hagkerfinu Þá er ljóst að staða efnahagsmála er um margt snúin. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, nefnir í því samhengi útflutningsgreinarnar. „Það hefur komið högg eftir högg eftir högg núna á síðustu haustmánuðum,“ segir hún og beinir sjónum að atvinnuleysistölum, en atvinnuleysi hefur ekki verið meira síðan vorið 2022. „Á sama tíma er verðbólgan ennþá mikil. Þetta hefur ekki ennþá smitast út í minni verðbólguþrýsting eða minni innlendan þrýsting. Við erum ennþá með verðbólgu sem er 4,5 prósent. Hún var 4,6 prósent í janúar fyrir ári síðan þannig að þetta voru ekki miklar breytingar sem voru á árinu þó að það hafi orðið mjög miklar breytingar á hagkerfinu á útflutningshlið þess. Þetta er sérstök staða og erfið staða sem við erum í núna farandi inn í 2026,“ segir Erna. Nánar er rætt við Jóhönnu Vigdísi og Ernu Björg í Þetta helst í dag.