Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni þegar hún var sex til níu ára gömul. Brotin sem maðurinn er ákærður fyrir framdi hann frá vori 2023 fram að hausti 2025 á heimili þeirra í Hafnarfirði. Sami maður hlaut fyrir tveimur árum þungan dóm fyrir gróf kynferðisbrot gegn móður stúlkunnar í mjög sérstöku sakamáli, sem varð til þess að hann sat aldrei inni, að bón móðurinnar. Meira er fjallað um það hér að neðan. Mjög gróf brot Í fyrsta lið ákærunnar nú kemur fram að maðurinn hafi margítrekað haft önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna, beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann hafi nýtt sér yfirburði sína, traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir og notfært sér að hún gat hvorki spornað við verknaðinum né skilið þýðingu hans, meðal annars vegna aldurs og eftir atvikum vegna þess að hún svaf. Í fyrsta liðnum eru talin upp tólf brot, sem öll eru sögð varða við 194. grein hegningarlaga um nauðgun. Tíu þeirra eru í ákæru sögð fullframin brot og tvö þeirra eru tilraunir til brots. Nánari lýsing á brotum hefur verið fjarlægð úr ákæru sem fréttastofa fékk afhenta, en fréttastofa hefur heimildir fyrir því að brotin séu mörg hver sérlega gróf. Í ákæru er tekið fram að með háttseminni hafi maðurinn ógnað lífi, heilsu og velferð stúlkunnar „endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt,“ að því er segir í ákæru. Einnig ákærður fyrir áreitni – fer fram á sex milljónir Í öðrum lið ákærunnar er maðurinn sagður ítrekað hafa áreitt stúlkuna kynferðislega með kynferðislegu tali og ógnað lífi, heilsu og velferð hennar endurtekið. Fyrir hönd stúlkunnar er maðurinn krafinn um sex milljónir króna í miskabætur. Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn um miðjan október, eftir að stúlkan sagði móður sinni frá brotunum. Sættust og tóku aftur saman Samkvæmt upplýsingum fréttastofu rauf maðurinn skilorð með brotum sínum nú. Hann hlaut í febrúar fyrir tveimur árum fimm ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ítrekuð og gróf kynferðisbrot gegn sambýliskonu sinni og barnsmóður, sem jafnframt er móðir stjúpdótturinnar. Lausleg athugun fréttastofu bendir til þess að ekki hafi áður verið fjallað um þann dóm opinberlega. Sá dómur var afar óvenjulegur, að því leyti að þrátt fyrir að hann væri mjög þungur var hann alfarið skilorðsbundinn. Ástæðan var sú að sambýliskonan hafði sæst við manninn, dregið til baka fjögurra milljóna króna bótakröfu, þau voru aftur farin að búa saman og hún lagði fram bókun fyrir dómi þar sem hún baðst vægðar fyrir hann. Mundi missa húsnæði og flosna upp úr námi Í bókuninni sagði hún að maðurinn hefði breytt hegðun sinni til mikilla muna, væri hættur að beita ofbeldi og væri orðinn „nærgætinn, góður faðir og góður maki í dag“. Hann veitti henni mikinn stuðning, tæki þátt í uppeldi barnanna og hefði farið í mikla sjálfsvinnu. Hún sagði að þótt hún gerði sér fullkomlega grein fyrir alvarleika þeirra brota sem hann hefði beitt hana, mundi fangelsisvist hans bitna meira á henni en honum. „Hún myndi líklega missa húsnæði sitt þar sem hún gæti ekki ein staðið undir afborgunum af húsnæðinu, hún yrði að hætta námi sem myndi eyðileggja algjörlega framtíðarmöguleika hennar til tekjuöflunar og hún stæði ein eftir með ábyrgð á uppeldi og umönnun [barnanna].“ Ólík sjónarmið vógust á í afar sérstöku máli Dómarinn féllst á bón konunnar, þótt í dómnum sé tekið fram að málið sé „afar sérstakt“. „Brot ákærða eru gróf, margítrekuð og í það minnsta eitt skipti var brotið framið í nærveru barns yngra en 15 ára. Að áliti dómsins á ákærði sér engar málsbætur hvað brotin sjálf varða. Þá verður ekki annað séð en að ásetningur ákærða til brotanna hafi verið sterkur og einbeittur,“ segir dómarinn Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Í dómnum sagði að ólík sjónarmið vægjust á, eitt þeirra væri að „brotaþoli í máli eigi að geta lagt traust sitt á refsivörslukerfið og að mikilvægt sé að draga ekki úr brotaþolum að kæra brot sem þeir hafa orðið fyrir“. Mætti ekki í héraðsdóm Ákæran í nýja málinu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn ekki viðstaddur þingfestinguna heldur tók afstöðu til sakargifta í gegnum fjarfundarbúnað. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að hann hafi á rannsóknarstigi málsins játað sök að stórum hluta, en ekki liggur fyrir hvort hann játi samkvæmt lýsingum í ákærunni. Þinghaldið í málinu er lokað eins og alltaf er í kynferðisbrotamálum.