Framboð á áfangastöðum frá Keflavíkurflugvelli veturinn 2025 til 2026 er aðeins minna en fyrir ári síðan, 65 áfangastaðir í stað 71. Á hinn bóginn gerir sumaráætlun Isavia fyrir 2026 ráð fyrir því að áfangastaðir verði eins margir og sumarið 2025, eða 82. Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn fréttastofu. Sumaráætlunin verður að vísu ekki endanlega tilbúin fyrr en í febrúar og gæti því tekið breytingum. Tvö flugfélög bæta við áfangastöðum og annað hefur flug til Íslands Grétar Már Garðasson, forstöðumaður flugfélaga og markaðsmála á Keflavíkurflugvelli, segir í skriflegu svari til fréttastofu að markvissar aðgerðir hafi lágmarkað áhrif brotthvarfs Play í lok september á starfsemi Keflavíkurflugvallar. „Um leið og fréttir bárust af því að Play hefði hætt starfsemi höfðum við samband við þau flugfélög sem þegar eru að fljúga til okkar og könnuðum áhuga á að fjölga ferðum eða bæta við áfangastöðum,“ segir Grétar. Sú vinna skilaði því meðal annars að nýtt flugfélag hefur flug til Keflavíkur og tvö önnur hafa bætt við nýjum áfangastöðum næsta sumar. Nýir áfangastaðir í Bandaríkjunum og Kanada Það eru bandaríska flugfélagið United Airlines og kanadíska flugfélagið Westjet sem bjóða upp á nýja áfangastaði í sumar, United Airlines til Washington D.C. og Westjet til Edmonton og Winnipeg. Flugfélagið Air Transat hefur síðan flug til Íslands síðar á þessu ári, líkt og segir á vef Isavia . Flugfélagið ætlar að bjóða upp á flug á milli Montréal í Kanada og Keflavíkurflugvallar tvisvar í viku, frá 17. júní til 28. september. Þetta er í fyrsta sinn sem Air Transat flýgur til Íslands. Flugfélagið var stofnað árið 1986 en höfuðstöðvar þess eru í Montréal. Grétar Már bendir einnig á að Icelandair hefur aukið framboð sitt um 10% í vetur, Finnair um 50%, SAS um 30% og Wizz Air um 21,5%. „Við erum í stöðugu og góðu sambandi við okkar flugfélög og þess utan sækjum við á hverju ári ráðstefnur flugvalla og flugfélaga til að ræða við okkar sterku samstarfsaðila og funda með nýjum flugrekendum til að segja þeim frá áfangastaðnum Íslandi,“ segir Grétar.