Málsmeðferð á umsókn um leyfi til hvalveiða ekki í samræmi við lög

Umboðsmaður Alþingis telur að málsmeðferð matvælaráðuneytisins á umsókn um leyfi til hvalveiða árið 2024 hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar sem var birt í dag. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þáverandi matvælaráðherra tilkynnti ákvörðun sína um að leyfa hvalveiðar á veiðitímabilinu 2024 þann 11. júní sama ár. Bjarkey sagði sér skylt að gefa leyfið út burtséð frá eigin skoðunum og stefnu Vinstri grænna. Hvalur hf. kvartaði yfir málsmeðferð ráðuneytisins í kjölfar umsóknar um leyfi til veiða á langreyðum og að ráðherra hefði ekki verið heimilt að tímabinda leyfið við eitt ár. Framkvæmdastjóri Hvals hf., Kristján Loftsson, sagði fyrirvarann sem ráðherra gaf allt of skamman og málmeðferð ráðuneytisins vera leiðina til að drepa atvinnureksturinn. Venjan árin á undan var að gefa út veiðiheimild á langreyðum til fimm ára í senn og það veitti Bjarni Benediktsson þegar hann tók við ráðuneytinu af Bjarkeyju seinna sama ár. Íþyngjandi takmörkun og of langur tími Í áliti sínu bendir umboðsmaður Alþingis á að ráðherra hefði ákveðið svigrúm en yrði að gæta meðalhófs. Samkvæmt minnisblaði sem lá fyrir í ráðuneytinu var hægt að fara tvær leiðir þegar gildistími leyfisins var ákveðinn. Annars vegar að gefa út leyfi vegna 2024 til 2025 en hins vegar að tímabinda leyfið við árið 2024. Seinni leiðin var farin. Ákvörðun ráðuneytisins hefði að mati umboðsmanns hvorki verið reist á fullnægjandi heildstæðu mati né hafi meðalhófs verið gætt. Sú breyting að takmarka gildistíma leyfisins við árið 2024 yrði að teljast íþyngjandi miðað við fyrri framkvæmd. Þá hefði ráðuneytið átt að gæta betur að málshraðareglu stjórnsýslulaga með tilliti til þess hve langur tími leið frá því að umsókn barst um leyfið þar til óskað var eftir frekari gögnum og upplýsingum frá þeim sem sótti um leyfið. Enn fremur hefði dregist of lengi að óska eftir lögbundinni umsögn Hafrannsóknastofnunar.