Snúin kjaradeila en niðurstaða gerðardóms í samræmi við kjarasamninga

„Við erum ánægð með að það sé komin niðurstaða og að það sé í raun kominn á langtímasamningur. Það skiptir mestu máli og það að niðurstaða gerðardómsins sé í samræmi við þá launastefnu sem hefur verið mörkuð.“ Þetta segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, um úrskurð gerðardóms í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og SA, fyrir hönd Isavia. Með úrskurði gerðardóms er tryggður kjarasamningur fyrir flugumferðarstjóra með gildistíma til ársloka 2028, en þó með fyrirvara. Ragnar segir mikilvægt fyrir starfsemi Isavia, og mikilvægi þeirrar starfsemi fyrir Ísland, að þar ríki friður. „Hvað varðar efnislega niðurstöðu þá erum við svo sem sátt við hana. Þetta var snúin kjaradeila og tel ég niðurstöðuna í nokkuð góðu samræmi við þá kjarasamninga sem við höfum gert vegna einstakra fyrirtækja innan samtakanna,“ segir Ragnar. Úrskurður gerðardóms ígildi kjarasamnings Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia, gerðu samning við Félag íslenskra flugumferðarstjóra um að fela gerðardómi að úrskurða í kjaradeilunni. Niðurstaðan felur í sér ígildi kjarasamnings. „Þessi niðurstaða fer ekki í atkvæðagreiðslu, hún fer ekki í undirritun meðal samningsaðila heldur er í raun kominn á bindandi samningur milli aðila sem gildir til ársloka 2028. En þó með fyrirvara, sem kemur fram í kjarasamningnum, að ef samningum á almennum vinnumarkaði verður sagt upp vegna brostinna forsenda núna á árinu 2026 gæti komið til þess að hann falli úr gildi nú þegar í lok þessa árs,“ segir Ragnar. Kjarasamningurinn byggir á þeirri launastefnu sem almennt hefur verið mörkuð á vinnumarkaði. Einnig er horft til þess að kauptaxtar kjarasamninga taka ákveðnum viðbótarbreytingum á samningstímabilinu. „Það á við um almenna kjarasamninga landssambands Alþýðusambandsins og það á einnig við um samninga hjá hinu opinbera og vegna einstakra fyrirtækja. Þannig að það er fyrirvari hvað varðar launaþróun á almennum vinnumarkaði. Það er öðruvísi útfært í þessum gerðardómi en í ágætu samræmi við það sem hefur verið samið um.“ „Gerðardómurinn fer þarna ákveðnar aðrar leiðir. En þó verður niðurstaðan sú að við erum í heildina sátt við niðurstöðu gerðardómsins og mér sýnist á ummælum formanns stéttarfélagsins að þeir séu nokkurn veginn sama sinnis,“ segir Ragnar.