Sendiherraefni Trumps grínast með að Ísland verði hluti af Bandaríkjunum

Fyrrverandi þingmaður Bandaríkjanna, Billy Long, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt sem sendiherra við Ísland, grínaðist við þingmenn í vikunni með að Ísland yrði 52. ríki Bandaríkjanna. Frá þessu greinir fjölmiðillinn Politico. Bandaríkin eru einungis með 50 ríki og er því óljóst hvert 51. ríkið er, en ætla má að Grænland hreppi það sæti í huga Long. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji ná yfirráðum yfir Grænlandi. Margir hafa spurt sig hvort forsetinn kunni að ásælast fleiri lönd á norðurslóðum og því ljóst að mörgum verður ekki skemmt yfir gríni Long. Utanríkisráðherrar Grænlands og Danmerkur sóttu í dag fund með varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem þeir fyrrnefndu ítrekuðu afstöðu sína gegn því að Bandaríkin legðu Grænland undir sig. Long var áður þingmaður Repúblikana fyrir hönd Missouri og starfaði áður sem uppboðshaldari. Nýlega starfaði hann sem ríkisskattstjóri Bandaríkjanna en Bandaríkjaforseti rak hann eftir aðeins tvo mánuði í starfi og tilnefndi hann samdægurs sem sendiherra við Ísland. Tilnefning hans hefur ekki verið staðfest, en það er í höndum öldungadeildar Bandaríkjaþings.