„Því miður þá verðum við að orða þetta þannig að ráðherra fer ekki með rétt mál“

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri hefur frá 2004 þróað byrjendalæsi - kennsluaðferð fyrir yngsta stig grunnskóla. Og þau eru sökudólgarnir ef miðað er við orð Ingu Sæland, nýs barna- og menntamálaráðherra, sem sagt hefur í viðtölum að byrjendalæsisstefnan væri ástæða þess að nærri 50% ungra drengja væru nánast ólæs eftir tíu ára grunnskólagöngu. „Það stóð ekki steinn yfir steini í því sem hún var að segja“ „Því miður þá verðum við að orða þetta þannig að ráðherra fer ekki með rétt mál,“ segir Gunnar Gíslason, forstöðumaður MSHA. „Í fyrsta lagi þá erum við ekki að sjá mun á drengjum og stúlkum hvað árangur í læsi verðar eftir þriðja bekk. Við erum að sjá þann mun verða til seinna í skólagöngunni.“ Allar aðferðir sem byrjendalæsi byggi á séu sannreyndar og fjarri lagi að verkefnið sé afsprengi læsisaðferða sem ráðherra segir að hafi sýnt sig að virkuðu ekki í Bretlandi. Kollegum Gunnars var sömuleiðis brugðið við orð ráðherrans í gær. „Ég einhvern veginn tók þetta svolítið nærri mér. Það stóð ekki steinn yfir steini í því sem hún var að segja,“ segir Jenný Gunnbjörnsdóttir, sérfærðingur við MSHA. Fullur vilji til að ræða málin við nýjan barna- og menntamálaráðherra Hún segir um 60 skóla í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar um byrjendalæsi. Alls staðar sé vel fylgst með þessu starfi en umræðan þurfi að vera réttum nótum. „Þannig að mér finnst oft í þessu argaþrasi að við séum að rífast um það sem ekki skiptir máli. Við verðum að fara upp úr þessum hjólförum og tala um það sem skiptir máli.“ Gunnar segir þau hafa fullan vilja til þess að hitta nýjan barna- og menntamálaráðherra. Hann viti ekki betur en rektor Háskólans á Akureyri hafi sent erindi til Ingu Sæland og boðið henni norður til samtals. „Og það er nú eiginlega bara grundvallarforsenda ákvarðanatöku sem er upplýst að menn kynni sér allar hliðar máls áður en stóri dómur er felldur.“