Írani sem býr hér á landi bindur vonir við að Bandaríkjaforseti standi við orð sín og skerist í leikinn í Íran. Hann líkir ástandinu í heimalandinu við Þýskaland nasismans. Láta líkin liggja í hrúgum til þess að hræða fólk Mótmælendur hafa þyrpst út á götur í Íran dag eftir dag frá 28. desember. Mótmælin hófust með verkfalli verslunareigenda í höfuðborginni Teheran í mótmælaskyni við bágborið efnahagsástand og lágt gengi íranska ríalsins gagnvart bandaríkjadal. Verkfallið varð að ófriðarbáli og lenti mótmælendum saman við lögreglu. Sex voru drepnir. Mótmælin hafa undið upp á sig á síðustu tveimur vikum. Þau eru talin þau fjölmennustu og útbreiddustu í Íran síðan klerkastjórnin tók völdin árið 1979. Í byrjun var efnahagsástandi landsins mótmælt, en fljótlega fór krafa um stjórnarskipti að vera hávær. Mannréttindasamtök segja að um 2.600 mótmælendur hafi verið drepnir. „Í einu orði, þjóðarmorð. Þetta er helför nútímans,“ segir Ali Mobli, Írani sem búið hefur á Íslandi í fjölda ára. „Þeir drepa fólk án manngreiningarálits. Og þeir kalla út slökkviliðsbíla til að spúla blóðið af götunum. Svo slæmt er það. Sums staðar láta þeir líkin liggja í hrúgum til að fólkið verði hrætt.“ Írani sem búsettur er hér á landi segir að verið sé að fremja þjóðarmorð í heimalandinu. Hann bindur vonir við að Trump standi við orð sín og grípi inn í. Fara milli húsa með raftækjaskanna Yfirvöld í Íran lokuðu fyrir Internetið á fimmtudag. Ali segir þó dæmi um að samlandar sínir hér á landi hafi náð sambandi við fjölskyldu eða vini í gegnum gervihnetti Starlink. „Aðstæður eru viðkvæmar svo að þau geta fátt sagt. En sagt er að vonast sé til hernaðaríhlutunar utan frá. Við deyjum hér. Við erum stráfelld hér. Þetta er hryllilegt ástand. Þeir sem þora meiru veita ítarlegri upplýsingar.“ Hann segir símtölin eiga það sameiginlegt að vera stutt. Fólk sé hrætt við að segja of mikið. „Þeir fara um með raftækjaskanna og finna þessi tæki og fara hús úr húsi. Þetta er Þýskaland nasismans. Algerlega þannig,“ segir Ali. Staðan versni með degi hverjum Fundir til stuðnings mótmælendum í Íran hafa verið haldnir víða um heim. Ali segir stöðuna í heimalandinu fara versnandi dag frá degi. Til að mynda hafi yfirvöld sett þeim, sem vilji sækja ástvini sína í líkhúsin, afarkosti. „Þeir þurfa að borga 5000 evrur eða skrifa undir pappíra sem segir að þetta fólk tilheyri basij-sveitunum, öryggissveitum stjórnvalda í Íran. Fólk á ekki þessa upphæð. Þetta er eins og að biðja fólk um að borga 50 milljónir.“ Telur Trump síðustu von Írana Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur hvatt mótmælendur til að láta ekki deigan síga. Hann hefur þegar lagt háa tolla á ríki sem eiga í viðskiptum við Íran og hótað hörðum viðbrögðum ef Íranir hefja aftökur á mótmælendum. „Ég bið til Guðs að það sé satt. Ég bið að Trump forseti standi við orð sín, því það er okkar síðasta von.“