„Það er stundum talað eins og helmingur drengja útskrifist ólæs“

Viðtal við Ingu Sæland, nýjan mennta- og barnamálaráðherra, í Kastljósi í gær vakti sterk viðbrögð. Inga dró upp dökka mynd af stöðu menntakerfisins, og boðaði róttækar breytingar. Í þætti kvöldsins var rætt um stöðu menntakerfisins, vandamál og úrlausnir, við þau Amalíu Björnsdóttur, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands. KÍ og Inga ná höndum saman Magnús segir viðbrögð gærdagsins sýna að engum sé sama um menntamálin. Það hafi einnig leitt það af sér að Kennarasambandið átti góðan fund með Ingu í dag þó svo að ýmislegt hefði mátt betur fara í viðtalinu í gær. „Við teljum okkur vera bara á góðum stað með það að við séum með einstakling í ráðuneytinu sem ber mikinn metnað fyrir að ná árangri í skólakerfinu,“ sagði Magnús. Hann kvaðst hlakka til þess að taka samtalið um skólamálin sem kennarasambandið hafi lengi kallað eftir. „Við horfum bara fram á við og ætlum að ná höndum saman, til að nota orð Ingu, leggjast öll á sömu árar.“ Hvað þýðir það að vera læs? Inga nefndi í viðtalinu í gær að ein helsta rót þess vanda sé innleiðing svokallaðrar byrjendalæsisstefnu á kostnað hljóðaðferðar í lestri. Amalía segir það ekki rétt. Um þriðjungur skóla hafi innleitt þá stefnu en hljóðaðferðin sé áfram hluti af lestrarkennslu. „En við verðum líka að hugsa út í hvað þýðir það að vera læs? Það er stundum talað eins og helmingur drengja útskrifist ólæs. Það þýðir það ekki að þeir geti ekki lesið texta en þeir geta ekki unnið með flókinn texta,“ segir Amalía. Það kunni að vera vegna ófullnægjandi námsgagna eða vegna þess að skólakerfið leggi ekki næga áherslu á að kenna nemendum það. „Sem er mjög mikilvægt að þau geti í nútímasamfélagi þar sem alls kyns vitleysa dynur á okkur alla daga. En þetta er ekki þannig að þau geti ekki kveðið að eins og hét í sveitinni í gamla daga. Þeir geta það. En þeir geta ekki lesið flókinn texta og það er auðvitað áhyggjuefni.“