Uppfærir gervigreindarlíkan X til þess að sporna við kynferðislegum djúpfölsunum

Grok, gervigreindarlíkan Elon Musk, hefur verið uppfært og mun nú ekki hafa þann eiginleika að geta breytt myndum af fólki til þess að virðast fákætt. „Við höfum gripið til tæknilegra ráðstafana til að koma í veg fyrir að Grok-aðgangurinn leyfi breytingar á myndum af raunverulegu fólki í fáklætt í fötum eins og bikiníum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu X, sem rekur gervigreindarlíkanið Grok. Tilkynningin var birt nokkrum klukkustundum eftir að æðsti saksóknari Kaliforníuríkis greindi frá því að dreifingar á kynferðislegum djúpfölsuðum myndum sem búnar höfðu verið til með líkaninu væru til rannsóknar hjá ríkinu. Myndirnar sem voru í dreifingu voru meðal annars af börnum. „Þetta efni, sem sýnir konur og börn í nekt og kynferðislega grófum aðstæðum, hefur verið notað til að áreita fólk um allt Internetið.“ segir Rob Bonta, ríkissaksóknari í Kaliforníu. Víðtækar áhyggjur hafa verið af kynferðislegum djúpfölsunarmyndum sem gerðar hafa verið með gervigreind bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Malasía og Indónesía hafa þegar lokað fyrir aðgang að spjallmenni Grok og forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, varaði við því að X gæti misst réttinn til sjálfsstjórnar vegna hneysklisins. Takmörkunin nær til allra notenda líkansins, þar með talið áskrifenda. Þeir notendur sem reyna að misnota reglur Grok verða dregnir til ábyrgðar, segir í tilkynningunni. Fjölmiðlaeftirlit Bretlands, Ofcom, sagði fyrr í vikunni að það myndi rannsaka hvort X hefði farið að breskum lögum er varða dreifingu á kynferðislegu myndefni.