Félag akademískra starfsmanna við Háskólann í Bifröst gerir athugasemdir við vinnubrögð rektors, deildarforseta viðskiptadeildar og rannsóknarstjóra skólans. Félagið segir í yfirlýsingu að rektor hafi sent erindi til siðanefndar skólans, um fræðigreinar þriggja starfsmanna, án þess að starfsmönnunum væri gefinn kostur á að veita skýringar. Þá fer félagið fram á að stjórn skólans, sem hafi fengið yfirlýsinguna afhenta, grípi til ráðstafana því málsmeðferðin hafi valdið trúnaðarbresti og akademískir starfsmenn geti ekki starfað með slíkum stjórnendum, að því er segir í yfirlýsingunni. Félag akademískra starfsmanna telur hátt í 30 félagsmenn og þurfti meirihluta þeirra sem mættu á fundinn til að samþykkja hana. Niðurstaðan var að 16 kusu með vantrauststillögunni og einn á móti. Gruna brot á siðareglum Fréttastofa er með gögn frá einum þessara þriggja starfsmanna undir höndum. Í erindi rektors til siðanefndar Háskólans á Bifröst er nefndin beðin um að rannsaka framlag starfsmanns til rannsóknargreinar sem hann sé þriðji höfundur af. Starfsmaðurinn sé grunaður um brot á siðareglum, kennarar, rannsakendur og nemendur eigi ekki að setja fram hugverk annarra sem sín eigin. Í minnisblaði til rektors frá rannsóknarstjóra háskólans og deildarstjóra viðskiptadeildar er lagt mat á framlag starfsmannsins, þar kemur fram að þau hafi notað gervigreindarforritið Claude til aðstoðar. Rökin sem talin eru fram í minnisblaðinu eru meðal annars að efni greinarinnar sé ekki undir sérsviði starfsmannsins. Aðalhöfundur staðfesti þátt starfsmannsins Lögmaður starfsmannsins hefur sent siðanefndinni svar þar sem þess er krafist að málinu verði vísað frá. Lögmaðurinn leggur fram gögn um framlag hans við greinina, meðal annars tölvupósta, drög og endanlega grein. Í greinargerð hans kemur fram að aðalhöfundur fræðigreinarinnar hafi staðfest vinnu starfsmannsins við hana, sem hafi átt þátt í hugmyndafræðilegri vinnu, greiningum, túlkunum og texta. Niðurstaða aðalhöfundar hafi verið að það hafi verið brot á siðareglum að tilgreina starfsmanninn ekki sem meðhöfund. Gagnrýna notkun gervigreindar Í yfirlýsingu Félags akademískra starfsmanna við Bifröst er gagnrýnt að málatilbúnaður rektors byggi á niðurstöðum gervigreindarforrits, sem hafi verið látið meta framlag starfsmanna til fræðigreinar út frá ferilskrá þeirra. Í minnisblaði stjórnendanna er tilgreint að það hafi verið skrifað með hjálp Claude. Félag starfsmannanna segir óboðlegt að leggja mat gervigreindar til grundavallar í málum sem varða starfsheiður fólks. Það sé óáreiðanlegt og veki auk þess upp spurningar um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þetta hafi valdið trúnaðarbresti milli akademískra starfsmanna og stjórnendanna. Því treysti akademískir starfsmenn skólans sér ekki til að starfa áfram með þeim, segir í bréfinu sem var sent til stjórn skólans. Félagið fer fram á að hún grípi til viðeigandi ráðstafana. Rektor háskólans á Bifröst segist í samtali við fréttastofu ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna. Þá vildi hún ekki heldur tjá sig um vantraustsyfirlýsinguna.