„Ég er alltaf svolítið veik fyrir því að gera hvert ár að nýjum kafla,“ segir tónlistar- og leikkonan Elín Sif Halldórsdóttir, eða Elín Hall eins og hún er gjarnan kölluð. Hún byrjar árið 2026 með miklum krafti þar sem hún kemur fram á tónlistarhátíðinni Eurosonic Noorderslag í Hollandi núna um helgina, sendir frá sér nýja tónlist og hitar upp fyrir Laufeyju í mars. Hún segir árið byrja mjög vel. „Það er ískalt og ógeðslega gaman.“ Hún er ekki vön að setja sér áramótaheit en þykir gaman að skipta um gír og skilja eftir hluti sem voru ekki að ganga á liðnu ári. „Við byrjuðum í útgáfuferlinu, album campaign, síðasta sumar en hún er að byrja fyrir alvöru núna í janúar og byrjar með þessari ferð til Hollands. Ég er mjög spennt, það er ótrúlega mikil vinna að baki – alveg tveggja og hálfs árs vinna til að komast á þann stað að geta rúllað þessu út.“ „Þannig ég er bæði mjög óþreyjufull að byrja koma þessu út af alvöru en ég er líka smá stressuð, sem ég held að sé bara gott,“ segir Elín í samtali við menningarvef RÚV. „Ég var kannski aldrei í augnablikinu að njóta“ Elín telur nauðsynlegt að ögra sjálfri sér og vera utan þægindarammans. „Ég hef ekki verið innan þægindarammans mjög lengi.“ Það geri það þó að verkum að hún sé sífellt að reyna að bæta sig og sjá hvar hún hefði mátt gera betur í stað þess að fagna sigrunum. Árið 2025 markaði tímamót í ferli Elínar þar sem hún byrjaði að gefa út tónlist á alþjóðlegum vettvangi. Hún hlaut einnig Edduverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni Ljósbrot og opnaði tónlistarhátíðina BludFest í Bretlandi í sumar svo dæmi séu tekin. „Ég fékk ótrúlega mikið af skemmtilegum tækifærum og flottum tónleikum sem ég gat spilað, sem var búið að vera draumurinn alla ævi.“ „En af því að það var svo mikil áhersla á að bæta og verða betri þá var ég kannski aldrei í augnablikinu að njóta,“ segir Elín. Hún hafi ekki náð að hugsa með sér hvað það væri æðislegt að fá að spila þarna. „Ég var alltaf að hugsa um hvað var að og hvernig ég gæti bætt það, sem er ótrúlega mikilvægt líka.“ „En ef ég væri með einhver áramótaheit þá væri það að njóta og vera meira í augnablikinu og leyfa mér að vera ánægð með það sem ég geri. Því það er auðvelt að vita betur eftir á en maður gerir alltaf bara sitt besta, vonandi.“ Gat ekki verið með stjörnur í augunum ef hún ætlaði sér að vinna vinnuna sína Ef Elín leyfir sér að líta yfir liðið ár og vera stolt af afrekum sínum þá segir hún margt standa upp úr. „Ég er búin að vera ótrúlega meyr.“ Hún fór til London á Englandi í desember til að leggja lokahönd á hljóðversvinnuna fyrir nýju plötuna sem hún vinnur með Grammy-verðlaunahafanum Martin Terefe. „Það var kannski í fyrsta sinn sem ég leyfði mér að horfa í kringum mig og hugsa: Vá, hvernig komst ég á þennan stað?“ Hún minnist þess að hafa fengið stjörnur í augun þegar hún hitti Terefe fyrst, henni þótti upplifunin svo óraunveruleg. „Mér leið eins og þetta væri ekki að gerast. Mjög fljótlega þurfti ég bara að taka mig taki og setja mig í stellingar því ef ég ætlaði að vera starstruck stöðugt eða alltaf að hugsa hvað þetta væri sturlað og allt of stórt, þá gæti ég ekki einbeitt mér og þá gæti ég ekki unnið. Þá er ég bara allt of stressuð.“ „En núna þegar við vorum að klára plötuna þá leyfði ég mér að horfa í kringum mig og hugsa: Þetta er geðsturlað, vá hvað þetta er gaman og vá hvað ég er ógeðslega heppin að fá þetta tækifæri.“ „Ég var alltaf að búast við því að hann myndi hafa of mikið að gera“ Þau Elín og Terefe komu til með að vinna saman fyrir algjöra tilviljun. „Sem er mjög frústrerandi því ég væri geðveikt til í að geta gefið einhverjum leiðarvísinn að því hvernig þú kemst í þessa stöðu.“ Núverandi umboðsmaður hennar, Hrefna Helgadóttir, var að vinna fyrir Tónlistarmiðstöð og hitti fyrir umboðsmann frá Nashville sem var að leita að lagahöfundum til að vinna með pródúserum að lögum sem hægt væri að selja öðrum listamönnum. Þá hafi nafn Elínar borist til tals þar sem hún er flinkur lagahöfundur. „Það var líka algjör tilviljun að Martin hafði tíma og áhuga á að hitta mig. Við hittumst nokkrum sinnum á Zoom og ég var alltaf að búast við því að hann myndi hafa of mikið að gera.“ Hún hafi síðan flogið út að hitta hann og sýndi honum nokkrar hugmyndir sem hún hafði að lögum á ensku. Á þeim tíma hafði hún nánast eingöngu samið á íslensku og hafði því ekki margar hugmyndir. Þau hafi unnið nokkur lög en svo hafi Terefe sagt við Elínu að þetta væri einstaklingsverkefni sem hún ætti að gera sjálf og ef hún vildi þá myndi hann pródúsera plötuna fyrir hana. „Það var eitthvað það klikkaðasta. Ég þurfti bara að stay cool og segja já. Síðan þá höfum við markvisst verið að reyna að setja upp teymi til að reyna að gefa þessu verkefni sem besta tækifærið á að lifa einhverju farsælu lífi.“ „Ég er alltaf besti lagahöfundurinn á íslensku“ Sem lagahöfundur rær Elín gjarnan á persónuleg mið en hún hafði miklar áhyggjur af að hún gæti ekki samið á ensku því íslenskan er svo mikill hluti af henni. Enskan kæmi ekki auðveldlega til hennar. „Ég er alltaf besti höfundurinn á íslensku.“ Hana langaði að gera þessa plötu á ensku og tók það í sátt að hún yrði aldrei eins góður höfundur og á íslensku en það þýddi ekki að það væri ekki þess virði að reyna og ögra sjálfri sjálfri. Hún er heldur ekki að reyna að hljóma eins og hún gerir á íslensku eða endurskapa þau höfundareinkenni. Hún hefur litið á þetta sem nýtt verkefni þar sem hún var að vinna með alveg nýju samstarfsfólki og komin inn í nýtt menningarlegt samhengi, eða ekkert menningarlegt samhengi. Henni þykir gaman að geta vitnað í reykvísk minni eins og Kringluna og Bankastræti en þegar hún semji á ensku þá finnst henni hún ekki geta verið bundin við neinn ákveðinn stað. „Mér fannst ógeðslega gaman að rannsaka það.“ „Hvað ef þetta er allt tekið frá mér, ef þægindaramminn minn og pínu DNA-ið mitt er tekið frá mér? Hvernig get ég búið til tónlist sem fólk tengir við?“ Hana hafi langað að skoða hve mikið af hennar íslensku höfundareinkennum myndi blæða í gegn og hvað ekki. „Ég er ekki að reyna að þvinga fram einhverja ákveðna útkomu. Ég er ekkert viðkvæm fyrir því að fólk segi við mig: Þú ert miklu betri penni á íslensku. Væntanlega er ég það, það er móðurmálið mitt. En ég er samt bara að gera mitt besta.“ Sér sjarmann í því að geta verið tómt blað Hún hafi fundið ákveðið frelsi í að tjá sig á ensku og geta leikið sér með tungumálið. Henni þykir einnig frelsandi að finna ekki fyrir sömu væntingum frá fólki þar sem fólk hefur ekki fyrirframgefnar hugmyndir um hana erlendis. „Mér finnst ég kannski aðeins frjálsari annars staðar af því að ég hef verið þekkt fyrir ákveðna hluti. Maður er með eitt lag sem er spilað miklu meira en önnur. Það er ekki langt síðan ég lék Vigdísi og ef fólk stoppar mig þá er það yfirleitt út af einhverju sem ég hef gert leiklistartengt.“ „Það er eitthvað ótrúlega fallegt við það að geta verið einhvers staðar og fólk veit ekkert um mann. Ég hef getað séð mikinn sjarma í því, að geta verið tómt blað og sagt söguna á sínum eigin forsendum.“ Hún tekur þó fram að henni þykir mjög gott að vera á Íslandi og að hún sé mjög stolt af öllu því sem hún hafi gert. „En það er eitthvað frelsandi líka við það að geta verið í allt öðru samhengi.“ Fékk eldinn sem hún þurfti til að takast á við þessa ógnvænlegu hátíð Sem fyrr segir var Elín tilnefnd af Rás 2 sem fulltrúi Íslands á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi ásamt Inspector Spacetime og Múr. Hátíðin er ein sú áhrifamesta í Evrópu, haldin af ríkisútvarpsstöðvum álfunnar, og er einn helsti kynningarvettvangur fyrir nýja tónlist í Evrópu þar sem tónlistarfólk á borð við Dua Lipa og Of Monsters And Men hafa tekið sín fyrstu skref. „Þú mátt bara fara einu sinni á þessa hátíð þannig að þú verður að vera tilbúin,“ var sagt við Elínu fyrir mörgum árum. „Ekki fara of snemma því þeir hleypa þér ekki aftur. Fólk mun koma með stílabækur, horfa á tvö lög og fara. Þetta er bransahátíð, ekki aðdáendahátíð.“ Hún hafi því beðið lengi eftir því að finnast hún vera tilbúin til að spila á þessari hátíð. „Ég er ótrúlega glöð að ég beið. Ég reyni að pæla ekkert allt of mikið í því hvað það er mikil pressa.“ Á hverju ári eru þeir fjölmiðlar sem taka þátt í hátíðinni beðnir um að velja þá listamenn sem þeir eru spenntastir fyrir að sjá. Elín var þriðja mest meðmælta listakonan og var til dæmis nefnd á listum Rolling Stone, Clash og Hot Press. „Sem er ótrúlega mikill heiður. Ég var ekki að búast við því.“ „Það er búið að gefa mér eldinn sem ég þurfti til að mæta þessari ógnvænlegu hátíð.“ „Þetta er búið að vera alveg ótrúlega krefjandi fjall að klífa“ Komandi ár verður viðburðaríkt fyrir Elínu og segist hún mjög spennt fyrir að hita upp fyrir Laufeyju þegar hún kemur til landsins í mars. „Ég held samt að ég sé mest spennt fyrir plötunni minni. Það eru nokkur lög að koma út áður en platan kemur út einhvern tímann um miðbik ársins.“ Hún myndi gefa upp titil plötunnar en hún er ekki búin að ákveða hann. „Þetta er að koma, það eru hugmyndir,“ segir hún og hlær. „Ég er ekkert eðlilega spennt fyrir plötunni því þetta er búið að vera alveg ótrúlega krefjandi fjall að klífa og ég er ekkert búin að vera í þægindarammanum mínum í eina sekúndu.“ Þá á hún við hvorki í hljóðverinu að semja tónlistina, að vinna með öllu þessu nýja fólki eða komast að hjá útgáfufyrirtæki í London. „Þetta er allt búið að vera rosalega mikil vinna og ég er rosalega spennt að senda þetta út í heiminn og leyfa fólki að heyra þetta – og bara anda ofan í maga.“ Anna María Björnsdóttir ræddi við Elínu Sif Halldórsdóttur fyrir menningarvef RÚV.