Vandi fósturbarna orðinn dýpri og flóknari

Félag fósturforeldra hefur um nokkurt skeið reynt að vekja athygli ráðamanna á því að á sama tíma og margar jákvæðar breytingar hafi verið gerðar á barnaverndarkerfinu undanfarin ár, meðal annars með farsældarlögunum, hafi orðið neikvæðar breytingar líka. Félagið segir fósturbörn viðkvæmasta hóp barnaverndarkerfisins. Þær fáu og takmörkuðu rannsóknir sem hafa verið gerðar gefa vísbendingar um að börn sem fara í fóstur séu sátt með það og hefðu óskað þess að vera sett fyrr í fóstur eða verið lengur. Málsmeðferðartími hefur lengst Sigurgeir B. Þórisson er framkvæmdastjóri Félags fósturforeldra. Hann segir að með þeim kerfisbreytingum sem farið var í vegna farsældar barna hafi málsmeðferðartími barna í barnaverndarkerfinu lengst. Málefnum fósturbarna hafi auk þess verið dreift á fleiri stofnanir sem valdi flækjum og því að síður sé jafnvel gripið til fósturs en sé talið æskilegt. Eru börn að koma í fóstur í verri líðan en áður? „Það mætti já segja það. Við nemum þá tilfinningu meðal okkar félagsfólks. En við sjáum það líka í tölulegum gögnum.“ Barna- og fjölskyldustofa birti í fyrra samanburð á tilkynningum til barnaverndar á árunum 2022-2024. Þar kemur fram að tilkynningum um vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum hafi fjölgað. Sigurgeir segir að mikið af tilkynningunum séu um sömu börnin. Umsóknum um fóstur hefur á sama tíma fækkað, segir Sigurgeir. Heildarfjöldinn hefur farið dvínandi eftir stöðuga þróun upp á við frá árunum á undan. Í ársskýrslu Barna- og fjölskyldustofu er talað um að styrktu fóstri hafi fjölgað. Því úrræði er beitt þegar verulegur vandi er hjá barni. Vandi fósturbarna orðinn dýpri og flóknari Sigurgeir segir skýr merki þess að þegar börn séu send í fóstur í dag virðist algengara að vandi þeirra sé dýpri og flóknari. Að hans mati er markmið farsældarlaganna, um snemmtækar íhlutanir í málefnum barna í vanda, ekki að skila sér. Hann segir ástæðuna vera uppstokkun innan barnaverndarkerfisins, sem farið var í samhliða innleiðingu laganna. „Og margt jákvætt í því,“ segir Sigurgeir. Meðal breytinga sem voru gerðar eru að umdæmisráðin komu inn og tóku úrskurðarvaldið frá barnaverndarþjónustunum. „Þar hefur verið einhver seinagangur. Bæði virðist biðtíminn langur og barnaverndarþjónustur virðast líka stundum hikandi við að fara fyrir umdæmisráð, eins og það sé ekki kannski fullt traust þarna á milli, alltaf, í öllum málum.“ Sigurgeir segir þetta valda því að einstaklingar sem eru jafnvel komnir inn í kerfin séu lengur að fá niðurstöður í sínum málum. Þarf uppbyggingu innan kerfisins Sigurgeir segir álagið innan barnaverndarkerfisins vera mikið. Hann segir skort á þarfri uppbyggingu á þeim innviðum sem ættu að geta unnið að lausn vandans sem er til staðar. Hann segir auk þess ákall eftir sértækri þjálfun meðal fósturforeldra. Þau þurfi sértækari þjálfun í að taka á móti börnum sem komin eru í mikinn vanda. Sigurgeir vill að Inga Sæland, nýr ráðherra barnamála, samhæfi betur starfshætti barnaverndarþjónustu sveitarfélaga og fjármagni málaflokkinn betur.