Bogi Ágústsson ræddi við Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunni Elísabetu Bogadóttur um erlend málefni í Heimsglugganum á Rás 1. Aðalefni Heimsgluggans voru umræður um ásókn Bandaríkjaforseta í Grænland en þau ræddu fyrst um skýrslu um fallna frétta- og blaðamenn. Fjöldi blaðamanna drepinn og særður Samtökin Blaðamenn án landamæra (Reporters sans frontières) segja að 67 blaðamenn –hið minnsta– hafi verið drepnir á síðasta ári, flestir á Gaza fyrir hendi Ísraelshers. Samtökin segja að föllnu blaðamennirnir hafi verið myrtir vegna starfa sinna. Þá segja samtökin að meira en 500 blaðamenn séu í fangelsum, langflestir í Kína. Vopnahlé á Gaza Bandaríkjastjórn hefur lýst yfir að annað þrep vopnahléssamkomulags á Gaza hafi tekið gildi. Samkvæmt því eiga Hamas-samtökin að afvopnast og Ísraelsher að draga sig enn frekar frá Gaza. Þá skal alþjóðleg nefnd taka við stjórn á Gaza og fjölþjóðlegt friðargæslulið sjá þar um öryggi. Trump krefst enn yfirráða á Grænlandi Utanríkisráðherrar Danmerkur og Grænlands, Lars Løkke Rasmussen og Vivian Motzfeldt, hittu JD Vance, varaforseta Bandaríkjanna, og Marco Rubion utanríkisráðherra í gær. Engin niðurstaða fékkst en ákveðið var að viðræðum yrði haldið áfram. Bandaríkjaforseti heldur til streitu kröfum um bandarísk yfirráð á Grænlandi. Motzfeldt segir málið afar þungt Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra grænlensku landsstjórnarinnar, sagði í viðtali við grænlenska ríkisútvarpið KNR eftir fundinn í Washington að kröfur Bandaríkjaforseta legðust afar þungt í Grænlendinga, þeir væru hræddir og ótryggir um framtíðina. Hún sagðist sjálf upplifa stöðugt aukinn þrýsting sem tæki mikið á. Hafna kröfum um kaup á Grænlandi Lars Løkke Rasmussen sagði í viðtali við Fox News í gærkvöld að Danir myndu hafna tilboðum Bandaríkjastjórnar um að kaupa Grænland. Hann sagði að ekki væri hægt að kaupa fólk. Þá benti hann á að aðeins sex prósent Grænlendinga vildu bandarísk yfirráð. Lars Løkke sagði að hann óskaði þess að umræður um stöðu Grænlands yrðu byggðar á staðreyndum. Lítill stuðningur við kröfur Trumps 71 prósent Bandaríkjamanna eru andvígir innlimun Grænlands í Bandaríkin með hervaldi samkvæmt nýrri könnun . Aðeins fjögur prósent eru fylgjandi. Þá hefur fjöldi þingmanna lýst andstöðu við kröfur Trumps. Það virðist hafa lítil áhrif á forsetann sem hefur endurtekið sagt öryggi Bandaríkjanna og hins vestræna heims í húfi. Segir Grænlandi ógnað af Rússlandi og Kína Trump segir að Grænlandi stafi ógn af Kínverjum og Rússum og fjöldi skipa frá löndunum sé á sveimi nærri Grænlandi. Danska blaðið Berlingske segir að Landhelgisgæsla Íslands véfengi þessar staðhæfingar. Engin hernaðarleg umsvif Rússa eða Kínverja séu á hafinu milli Íslands og Grænlands. Í grein Björns Bjarnasonar á síðu Varðbergs segir að Danir fagni yfirlýsingu landhelgisgæslunnar í deilunni við Trump. Hér má hlusta á Heimsglugga vikunnar. Utanríkisráðherrar Danmerkur og Grænlands, Lars Løkke Rasmussen og Vivian Motzfeldt, ræddu við varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna um stöðu og framtíð Grænlands. Bandaríkjaforseti krefst enn innlimunar Grænlands.