Áhrif hernáms á alþjóðasamskipti yrðu af skala sem við þekkjum ekki á okkar æviskeiði

Bandaríkin gætu tekið Grænland með hervaldi en afleiðingarnar yrðu gífurlegar, segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, um ásælni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Grænland. Ólafur Ragnar fjallaði um stöðu Norðurslóða og áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi í viðtali við CNBC-viðskiptafréttasjónvarpsstöðina í gærkvöld. Forsetinn fyrrverandi sagði að Danir gætu ekki varist hernaðarmætti Bandaríkjamanna og það væri vafasamt að nágrannaríki Grænlands og evrópsk ríki væru reiðubúin til að taka þátt í bardögum um landið. „En hvað gerist eftir það, því þetta myndi hafa gífurlegar afleiðingar fyrir vestrænt varnarsamstarf, fyrir alþjóðakerfið og á það hvernig önnur ríki bregðast við Bandaríkjunum? Svo að áhrifin yrðu á slíkum skala að við höfum ekki séð neitt því líkt á okkar æviskeiði.“ Fyrsti heimsleiðtoginn með hugsunarhátt fasteignaviðskipta Ólafur Ragnar sagði í viðtalinu að reynslan af störfum Trumps hefði sýnt að ekki væri hægt að nota hefðbundin módel stjórnmálafræðinnar til að skýra hvað hann sé að gera. Ólafur Ragnar vitnaði til orða þingmanns sem hefði sagt að Trump væri í grunninn maður úr fasteignabransanum sem hugsaði út frá staðsetningum. Og hægt væri að líta þannig á Grænland. „Hann er sennilega fyrsti leiðtoginn á alþjóðasviðinu sem fær þjálfun sína og hugsunarhátt úr fasteignabransanum.“ Hafa vanrækt uppbyggingu eigin innviða á norðurslóðum Ólafur Ragnar sagði að Bandaríkin þyrftu ekki nýtt landsvæði til að hafa mikla viðverðu á Norðurslóðum, hana hefðu þeir nú þegar en hefðu vanrækt að byggja upp innviði. „Að einhverju leyti myndi ég segja við Trump forseta að ef hann vill auka viðveru Bandaríkjanna á norðurslóðum þá ætti hann að byrja heima við, á uppbyggingu innan Bandaríkjanna.“ Ekki ógn af Rússlandi og Kína „Að svo stöddu stafar ekki bein augljós ógn af Rússlandi og Kína á norðurslóðum. Það þýðir ekki að það geti ekki gerst í framtíðinni.“ „Hvað varðar hernaðarlegt eða efnahagslegt mikilvægi er erfitt að skilja hvað nákvæmlega hann vill vegna þess að fyrirliggjandi samningar milli danska konungsríkisins og Bandaríkjanna um Grænland veita þeim gríðarleg tækifæri til að auka viðveru sína.“ Ólafur Ragnar benti á að Bandaríkjamenn hefðu áður haft tugi herstöðva á Grænlandi en nú aðeins eina. Þeir gætu fjölgað þeim ef þeir vildu. Þar að auki hafa Grænlendingar sett lög sem gera bandarískum kleift að stunda námurekstur og önnur viðskipti í landinu.