Vilja svör frá bandaríska sendiráðinu vegna meintra ummæla Longs um Ísland

Utanríkisráðuneytið hefur haft samband við bandaríska sendiráðið í kjölfar meintra ummæla sendiherraefnis um að Ísland ætti að tilheyra Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Bandaríski miðillinn Politico greindi frá því að Billy Long, sem Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hefði grínast við bandaríska þingmenn um að Ísland yrði 52. ríki Bandaríkjanna og hann ríkisstjóri þess. Ráðuneytið vill að komast að því hvort hann hafi látið ummælin falla eða ekki. „Utanríkisráðuneytið hefur haft samband við bandaríska sendiráðið á Íslandi til að kanna með sannleiksgildi hinna meintu ummæla,“ segir í skriflegu svari ráðuneytisins. Hvorki Bandaríkjastjórn né Long hafa staðfest eða hafnað því að þessi ummæli hafi verið látin falla. Um þúsund hafa sett nafn sitt á undirskriftalista um að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra eigi að hafna Long sem sendiherra. Íslenska ríkið getur tilkynnt sendiríki um að sendiherra sé ekki viðtökuhæfur samkvæmt 9. grein Vínasamningsins. Í honum segir einnig að sendiríki verði að ganga úr skugga um að móttökuríki veiti viðurkenningu. Hvað segja ákvæði Vínarsamningsins? Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband eru byggð á Vínarsamningnum sem gerður var í Vínarborg 18. apríl 1961. 4. grein samningsins segir að sendiríkið verði að ganga úr skugga um að móttökuríkið hafi veitt agrément, eða viðurkenningu, vegna þess manns sem það hyggst veita umboð sem forstöðumanni sendiráðs í því ríki. Móttökuríkið er ekki skyldugt til að skýra sendiríkinu frá ástæðu, ef það neitar um viðurkenningu. 9. grein samningsins segir að móttökuríkið geti hvenær sem er, og án þess að þurfa að gefa skýringar á ákvörðun sinni, tilkynnt sendiríkinu að forstöðumaður sendiráðs eða annar stjórnarsendimaður sé persona non grata eða einhver annar úr hópi starfsmanna sendiráðs sé ekki viðtökuhæfur. Í öllum slíkum tilvikum skal sendiríki, eftir því sem við á, annaðhvort kalla hlutaðeigandi mann heim eða binda endi á starf hans í sendiráðinu. Lýsa má yfir að maður sé persona non grata, eða ekki viðtökuhæfur, áður en hann kemur í land móttökuríkisins. Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar er í utanríkismálanefnd og ræddi meint ummæli Longs á Alþingi í morgun. „Þetta er að sjálfsögðu ekkert sérstaklega fyndið grín í ljósi þeirrar umræðu sem núna er í gangi vestanhafs um Grænland. Og reyndar eru þetta eiginlega ummæli sem eru frekar alvarleg. En þetta segir okkur kannski ansi mikið, því miður, um það virðingarleysi sem er að grafa um sig í Bandaríkjunum gagnvart fullveldi smárra ríkja. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það að þetta er gríðarlega alvarlegt fyrir lítið land eins og Ísland.“ Sigmar sagði hrikta allverulega í alþjóðakerfinu. Öll öryggisrök sem Bandaríkjamenn tíni til gagnvart Grænlandi ættu líka við um Ísland. Bæði Ísland og Grænland væru hernaðarlega mikilvægar eyjur. „Við verðum líka að hafa kjark til þess, Íslendingar, þrátt fyrir að við höfum verið í miklu vinasambandi við Bandaríkin, ekki síst í gegnum NATO, að ræða það hvar okkar öryggishagsmunum og hvernig okkar öryggishagsmunum er best komið í þessum breytta heimi. Það er ofureinfaldlega umræða sem við verðum að þora að taka. Deilum við enn þá gildum með þeim sem ráða ríkjum í Hvíta húsinu?“