Oddvitaslagur er í uppsiglingu hjá Sjálfstæðismönnum á Akureyri. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, lýsti því yfir í dag að hún vill verða oddviti flokks. Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn, tilkynnti í nóvember að hann sækist eftir endurkjöri. Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í bæjarstjórn ásamt L-listanum - bæjarlista Akureyrar og Miðflokknum. Berglind Ósk setti málefni fjölskyldunnar efst á blað í framboðstilkynningu sinni og sagði að sveitarfélagið þyrfti að styðja við fjölskyldur á öllum æviskeiðum. Hún sagði að sterkt atvinnulíf væri forsenda velferðar og kvaðst leggja áherslu á góð skilyrði fyrir fyrirtæki og frumkvöðla og samvinnu við atvinnulífið um áframhaldandi uppbyggingu. Berglind Ósk var kosin á þing 2021 en féll í prófkjöri fyrir síðustu kosningar. Heimir Örn nefndi í framboðstilkynningu sinni í nóvember að sex tíma gjaldfrjáls leikskóladvöl, lýðheilsukortið, hækkun á frístundastyrk til barna, verkefnið Virk efri ár og vinna við að koma á frístundastyrk til eldri borgara væru meðal fjölmargra góðra verkefna sem hefði verið komið af stað.