Íslensku bókahönnunarverðlaunin verða afhent í fyrsta sinn á morgun, föstudaginn 16. janúar, í Hönnunarsafni Íslands. Sama dag opnar í safninu sýningin Fallegustu bækur í heimi, með bókum sem unnið hafa alþjóðlegu verðlaunin Best Book Design from all over the World sem Stiftung Buchkunst hefur staðið fyrir í rúm 50 ár, auk tilnefndra bóka til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna í ár. Að verðlaununum standa Félag íslenskra bókaútgefenda og Félag íslenskra teiknara. Veitt verða verðlaun fyrir framúrskarandi bókahönnun í tveimur flokkum, annars vegar fyrir bestu bókarkápuna og hins vegar bestu bókarhönnunina. Allar tilnefndar bækur verða lagðar fram til verðlauna Stiftung Buchkunst fyrir Íslands hönd. Grafík verðlaunanna eru í höndum Hólmfríðar Benediktsdóttur og Lóu Yonu. Alls voru sex bækur tilnefndar í hvorum flokki. Í dómnefnd sátu Atli Hilmarsson, formaður dómnefndar, Guðmundur Úlfarsson, Kristján Bjarki Jónasson, Margrét Áskelsdóttir og Una María Magnúsdóttir.