Biðst afsökunar á gríni um að Ísland verði hluti af Bandaríkjunum

Sendiherraefni Bandaríkjanna, sem grínaðist við bandaríska þingmenn um að Ísland yrði 52. ríki Bandaríkjanna, hefur beðist afsökunar á ummælunum. Fjölmiðillinn Politico greindi frá orðum Long í gær og vakti það óhug margra, einkum í ljósi fundar Danmerkur, Grænlands og Bandaríkjanna um ásælni Bandaríkjanna í Grænlandi í gær. Utanríkisráðuneytið hafði samband við bandaríska sendiráðið til að kanna sanngildi ummælanna í kjölfarið. Long baðst afsökunar á ummælunum í samtali við vefmiðilinn Arctic Today og staðfesti þar með að hann hefði látið þau falla. Grínið vísaði til sendifulltrúa Bandaríkjanna á Grænlandi Hann kvaðst ekki hafa verið meðvitaður um viðbrögðin á Íslandi við ummælunum en skilji þau vel í ljósi stöðu mála á Grænlandi. Hann ítreki því að þau hafi verið sögð í gamni og kveðst hlakka til þess að vinna með Íslendingum. „Það bjó ekkert alvarlegt að baki þessu. Ég var með fólki sem ég hafði ekki séð í þrjú ár og þau voru að grínast með að Jeff Landry væri orðinn landstjóri Grænlands. Þau fóru að grínast í mér og ef ég hef móðgað einhvern þá biðst ég afsökunar,“ sagði Long. Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði Jeff Landry, ríkisstjóra Louisiana, sérstakan sendifulltrúa sinn í málefnum Grænlands í desember. Landry þakkaði forsetanum fyrir skipunina og kvaðst spenntur að vera liður í því að gera Grænland hluta af Bandaríkjunum. Tilnefning Long hefur ekki verið staðfest, en það er í höndum öldungadeildar Bandaríkjaþings, og því enn ekki ljóst hvort eða hvenær hann verði sendiherra á Íslandi.