Stígur til hliðar sem forstjóri Deloitte eftir ákæru um kynferðisbrot

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Honum er gefið að sök að hafa áreitt unga konu á hóteli á Suðurlandi vorið 2023. Vísir greinir frá. Í yfirlýsingu segist Þorsteinn Pétur stíga til hliðar sem forstjóri Deloitte á meðan málið er leitt til lykta, en neitar ásökunum. Lét ekki af háttsemi sinni fyrr en vinkona konunnar stöðvaði hann Í frétt Vísis af ákærunni, sem verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 20. janúar, segir að Þorsteini Pétri sé gefið að sök að hafa kysst brotaþola gegn hennar vilja. Hann hafi hlaupið að henni, ýtt henni upp við vegg, sett tunguna í munn hennar og káfað á kynfærum hennar innanklæða. Þorsteinn Pétur er sagður hafa haldið háttsemi sinni áfram þar til vinkona brotaþola kom að þeim, reif í jakka hans og öskraði á hann. Háttsemin hafi verið til þess fallin að vekja hjá brotaþola ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð. Brotið getur varðað allt að tveggja ára fangelsi. Hefur kært viðkomandi fyrir rangar sakagiftir Í yfirlýsingu frá Þorsteini Pétri segir hann málið vera uppspuna frá rótum og að hann hafi kært viðkomandi fyrir rangar sakagiftir. Hann segist jafnframt stíga til hliðar sem forstjóri á meðan málið er til lykta leitt. Þess má geta að héraðssaksóknari gefur ekki út ákæru í málum nema líklegt sé talið að það leiði til sakfellingar.