Úrbætur í flutningskerfi raforku geta hækkað flutningsgjöld til fiskimjölsverksmiðja og gert mengandi olíu ódýrari orkukost. Engir verðflokkar eru til hjá Landsneti fyrir millistóra notendur eða þá sem annars brenna mikilli olíu. Hitaveitan, Herjólfur og bræðslan þurfa að borga meira Landsnet lagði tvo nýja sæstrengi til Vestmannaeyja og fá Eyjar nú forgangsorku. Það þýðir að sumir fá ekki lengur afslátt vegna skerðanlegs flutnings og þurfa að borga meira. Þetta á við um hitaveituna, rafmagnshleðsluna fyrir Herjólf og bræðsluna. Herjólfur tilkynnti að hann myndi hætta að hlaða í Eyjum vegna kostnaðaraukans og sigla frá Eyjum á olíu. Í Landeyjahöfn er hins vegar enn skerðanleg orka með afslætti af flutningi. Bæjarstjóri Vestmannaeyja tilkynnti svo á facebook í gær að í framhaldi af samtali við umhverfisráðherra ætlaði útgerðin að aftur að sigla á rafmagni báðar leiðir vegna umhverfissjónarmiða. Hitaveitan í Eyjum sem er rafknúin þurfti að hækka verð á heitu vatni um áramótin og fram kemur í Eyjafréttum að hækkunin nemi tæpum 14 prósentum þrátt fyrir ýmsar aðrar lækkanir vegni aukinnar niðurgreiðslu frá ríkinu. Fiskimjölsverksmiðja Vinnslustöðvarinnar brennir mikilli olíu en getur keyrt á rafmagni. Aðrar bræðslur á landinu kaupa enn skerðanlegan flutning á raforku með afslætti og keyra líklega á rafmagni í ár. Vinnslustöðin fær hins vegar ekki lengur þann afslátt og fulltrúi fyrirtækisins segir í Eyjafréttum að rafmagnið sé orðið margfalt dýrara en olía. Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets, segir að nú fái Eyjamenn forgangsorku, séu komnir á almenna gjaldskrá eins og aðrir og allir landsmenn taki þátt í að borga framkvæmdina. Rafstrengirnir nýtist atvinnulífinu og stórnotendasamningur hafi verið gerður við Laxey fyrir landeldi. Það sé ekki góð niðurstaða ef bræðslan í Eyjum nýti olíu frekar en rafmagn. „Fiskimjölsverksmiðjur fyrir austan eru á skerðanlegum flutningi en nú er staðan í Eyjum sú að þá er hún komin á aðra gjaldskrá. Og auðvitað er þetta bara ekki góð staða,“ segir Ragna. Þetta gæti líka átt eftir að snerta aðrar fiskimjölsverksmiðjur. Úrbætur í flutningskerfinu annars staðar á landinu gætu orðið til þess að þær fái forgangsorku en missi líka afslátt vegna skerðanlegs flutnings, brenni frekar olíu og losi meira. Það er öfugsnúið ef úrbætur í flutningskerfi raforku verða til þess að fyrirtæki nýta það ekki og brenna frekar olíu. Ströng lög um gjaldskrá Landsnets Í gjaldskrá Landsnets ekkert til sem heitir millistór notandi eða notandi sem annars brennir mikilli olíu „Við erum í þeirri stöðu Landsnet að við þurfum að gæta jafnræðis í okkar gjaldskrá. Auðvitað eru ákveðin stórnotendaviðmið en fiskimjölsverksmiðjan nær því ekki,“ segir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets.