Hagsmunasamtök landeigenda vegna Holtavörðuheiðarlínu 3 voru stofnuð í gær og eru samstarfsvettvangur landeigenda og ábúenda jarða í Húnaþingi, þar sem fyrirhuguð lína á að liggja samkvæmt aðalvalkosti Landsnets. Þar er gert ráð fyrir að línan verði lögð um svokallaða byggðaleið, sem Landsnet segir að falli að stefnumörkun stjórnvalda um lagningu raflína. „Þar sem hún nýtir núverandi línugötu og liggur utan marka miðhálendis. Þá er leiðin talin skapa fleiri tækifæri fyrir nærliggjandi byggðir vegna nálægðar við samfélögin.“ „Gengur gegn stefnu ríkisins um lagningu raflína að leggja hana ekki stystu leið“ Í ályktun sem samþykkt var á stofnfundinum segir að hagsmunasamtökin afþakki lagningu línunnar samkvæmt fyrirliggjandi aðalvalkosti um lönd félagsmanna sinna og bendi ríkinu, sem eiganda Landsnets og Landsneti hf., á að nýta megi annan valkost. „Það gengur gegn stefnu ríkisins um lagningu raflína að leggja hana ekki stystu leið. Samkvæmt Umhverfismatsskýrslu Landsnets felur fyrirhugaður aðalvalkostur í sér verulega aukinn framkvæmdakostnað og hefur umtalsvert meira kolefnisspor samanborið við aðra valkosti. Vel er mögulegt að styrkja raforkuflutningskerfi landsins og finna línunni annan hentugan stað og þannig koma í veg fyrir að framkvæmdin raski framtíðarþróun byggðar, búsetu og rekstri á bújörðum.“ Landeigendur í Borgarfirði á sömu skoðun Þessar skoðanir landeigenda í Húnaþingi ríma nokkuð við það sem landeigendur í Borgarfirði höfðu um Holtavörðuheiðarlínu 1 að segja á síðasta ári þegar þeir stofnuðu sams konar hagsmunasamtök þar. „Hagsmunasamtök landeigenda afþakka Holtavörðuheiðarlínu 1 um lönd félagsmanna sinna og benda ríkinu sem eiganda Landsnets og Landsneti hf. á að nýta lönd ríkisins,“ sagði í ályktun þeirra samtaka, samhljóða ályktun hagsmunasamtaka landeigenda vegna Holtavörðuheiðarlínu 3. Í haust færðist Holtavörðuheiðarlína 1 aftur fyrir Holtavörðuheiðarlínu 3 í framkvæmdaáætlun Landsnets. Breytingin var sögð tilkomin vegna samræmingar við aðrar framkvæmdir.