Sænska símafyrirtækið Ericsson ætlar að fækka starfsmönnum í Svíþjóð um 1.600 í hagræðingarskyni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins sem sænska ríkissjónvarpið greinir frá . 90.000 starfa fyrir fyrirtækið á heimsvísu, þar af um 12.600 í Svíþjóð. Um 12% starfsmanna Ericsson í Svíþjóð verður því sagt upp störfum. SVT hefur eftir vinnumarkaðsráðherra Svíþjóðar að tilkynning Ericsson sé „þung skilaboð“ en að sænskt samfélag geti tekist á við slíkar áskoranir. Stuðningur og hjálp sé til staðar. Fyrirtækið sagðist vera í viðræðum við verkalýðsfélög í tengslum við fyrirhugaðar uppsagnir. Ekki var tekið fram hvaða deildir væru undir en fyrirtækið sagði frekari hagræðingaraðgerðir vera fram undan.