Hyggst halda áfram að fylgja eftir uppbyggingu hjúkrunarheimila

Nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ var formlega opnað í dag. Fyrrum félags- og húsnæðismálaráðherra klippti á borðann og segist ætla að halda áfram að fylgja eftir uppbyggingu hjúkrunarheimila, þrátt fyrir að sitja í öðru ráðuneyti. 80 rými á fjórum hæðum Hjúkrunarheimilið stendur við Krossmóa og er á fjórum hæðum með átta heimiliseiningum. Áttatíu rými skapast við þessa viðbót, þar af 50 fyrir nýja heimilismenn. Um 60 eru þegar fluttir inn og er gert ráð fyrir að rýmin verði fullnýtt fyrir lok mánaðar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir ánægjulegt að húsið sé komið í notkun. „Þetta hefur bara gengið vel hjá okkur. Okkur vantaði nýtt hjúkrunarheimili á Suðurnesin en auðvitað er þetta hjúkrunarheimili, eins og öll, fyrir alla landsmenn. Þannig þetta er ekki bara fyrir Suðurnesjamenn.“ Aldrei fleiri á biðlista Yfir 700 eru á biðlista eftir hjúkrunarrými og hafa aldrei verið fleiri. Skortur á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða hefur verið viðvarandi í lengri tíma en á síðustu fimm árum hefur biðlisti tæplega tvöfaldast. Ragnar Þór Ingólfsson, nýr félags- og húsnæðismálaráðherra, komst ekki til að klippa á borðann og forveri hans mætti í hans stað. „Við tókum þá sameiginlegu ákvörðun þar sem ég hef verið að vinna að uppbyggingu hjúkrunarheimilanna og teikna upp framtíðina upp á 1507 hjúkrunarrými og þá mun ég halda áfram að fylgja þeim. Það var ýmislegt búið að fara af stað áður en við komum til sögunnar og við höfum fengið að fylgja því eftir. Svo er enn þá fleira nýtt sem er að gerast,“ segir Inga Sæland, mennta- og barnamálaráðherra. Nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ var formlega opnað í dag. Fyrrum félags- og húsnæðismálaráðherra klippti á borðann og segist ætla að halda áfram að fylgja eftir uppbyggingu hjúkrunarheimila, þrátt fyrir að sitja í öðru ráðuneyti.