Búið er að senda ábendingu til Persónuverndar vegna máls sem kom upp í Háskólanum á Bifröst þegar rektor skólans tilkynnti þrjá starfsmenn til siðanefndar vegna gruns um brot á reglum með því að merkja sig með röngum hætti sem meðhöfundar fræðigreina. Meðal gagna málsins eru minnisblöð sem bera þess augljós merki að hafa verið skrifuð af gervigreind. Lögmaður segir málið allt frá grunni byggjast á niðurstöðum gervigreindarspjallmennis, sem sé grafalvarlegt. Erlendir meðhöfundar umræddra fræðigreinanna hafa staðfest þátttöku fræðimannanna á Bifröst í skrifunum.