Meirihluti Bandaríkjamanna segist andvígur hugmyndum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að eignast Grænland. Þetta kemur fram í nýrri könnun CNN. Um 25 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust styðja hugmyndir Trumps um að kaupa eða taka yfir Grænland á meðan 75 prósent sögðust á móti. Af þeim 75 sögðust 52 prósent mjög á móti. Önnur könnun Reuters og Ipsos sýndi lægri tölu, en þar kom fram að aðeins 17 prósent Bandaríkjamanna studdu hugmynd Trumps. Helmingur Repúblikana á móti hugmyndinni Þau sem sögðust kjósa flokk Bandaríkjaforseta, Repúblikanaflokkinn, skiptust í tvær fylkingar; helmingur með, helmingur á móti. Meðal kjósenda Demókrataflokksins voru 94 prósent á móti. Donald Trump hefur ítrekað lýst því yfir að hann telji nauðsynlegt fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna að eignast Grænland. Utanríkisráðherrar Danmerkur og Grænlands ræddu í gær við varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna um stöðu og framtíð Grænlands. Bandaríkjaforseti krefst enn innlimunar Grænlands.