Grísir eru halaklipptir á öllum gyltubúum á landinu. Halaklippingar á grísum eru ólöglegar nema brýn nauðsyn beri til. Allir svínaræktendur hafa fengið undanþágu Matvælastofnunar til að framkvæma halaklippingar á svínum. Þetta kemur fram í skýrslu Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um aðbúnað og velferð svína. Í sömu skýrslu kemur fram að ef halar eru ekki klipptir sem fyrirbyggjandi aðgerð, glími svínabú við alvarlegan vanda tengdan halabiti. Það sé útbreitt vandamál í svínarækt á Íslandi. Halabit, ef það á sér stað, hafi alvarlegri afleiðingar fyrir velferð dýranna en sjálf halaklippingin. Það er margar ástæður fyrir halabiti, meðal annars skortur á plássi fyrir hvert dýr, slæm loftgæði, léleg birta og mikill hávaði. Matvælastofnun vill fækka halaklippingum á Íslandi, meðal annars með bættum aðbúnaði á svínabúum. MAST vill skýra þann ramma sem halaklippingar lúta í samræmi við það sem mörg lönd innan Evrópusambandsins vinna að. Það er óþolandi að vita til þess að illa sé farið með svínin sem og önnur dýr og með öllu ólíðandi ef aðbúnaði þeirra er ábótavant. Kolbrún Áslaug Baldursdóttir og fleiri þingmenn óskuðu eftir svörum um aflífunaraðferðir í svínaræktun á Íslandi og tilteknar aðgerðir sem gerðar eru á svínum. „Það er óþolandi að vita til þess að illa sé farið með svínin sem og önnur dýr og með öllu ólíðandi ef aðbúnaði þeirra er ábótavant,“ sagði Kolbrún Áslaug í ræðu á Alþingi þegar beiðni hennar og annarra þingmanna um skýrsluna var tekin fyrir. Vonast til að reglugerð frá 2014 verði uppfyllt árið 2028 Svínaræktendur hafa fengið frest frá árinu 2014 til að tryggja að bú þeirra séu í samræmi við reglugerð um velferð svína. Fresturinn rann út í janúar 2025 en Bændasamtók Íslands óskuðu eftir þriggja ára viðbótarfresti í október 2024. Samtökin sögðu skort á fjármagni og erfiðleika við að fá leyfi fyrir nýjum byggingum hafi helst staðið í vegi fyrir að svínaræktendur gætu uppfyllt kröfur. Samtökin óskuðu svo eftir að fá lengri frest, til 2030. Frestur var veittur til 2028. Reglugerðin snýr að aðbúnaði en samkvæmt henni er meðal annars óheimilt að tjóðra svín eða halda þau í básum. Þá verða gyltur að ganga lausar. Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu í nóvember 2023 um að velferð svína á Íslandi væri töluvert ábótavant og stjórnvöld þyrftu að skýra stefnu sína í þessum efnum. Svínabú landsins eru 19, starfrækt af níu framleiðendum. Aðeins eitt þeirra, sem reist var í Eyjafirði 2024, uppfyllir allar kröfur reglugerðarinnar. 28 athugasemdir um halaklippingar á 10 árum Eins og fyrr segir eru halaklippingar á grísum ólöglegar en hafa þó tíðkast um allt land. Aðeins eitt af þeim búum sem Matvælaeftirlitið skoðaði árið 2015 stundaði ekki slíkar klippingar. Matvælastofnun hefur frá 2016 gert 28 athugasemdir við halaklippingar á svínabúum. Athugasemdirnar hafa snúið að málum allt frá að of stór hluti af hala hafi verið klipptur af – Samkvæmt lögum má í mesta lagi stytta hala um helming – yfir í að verkjameðhöndlun eða deyfing hafi ekki verið næg.