„Öll kvíðasárin mín átti að heila með þessari sjónvarpsseríu“

Á nýársdag hófu nýir íslenskir sjónvarpsþættir göngu sína á RÚV. Trine Dyrholm fer með aðalhlutverk í þáttunum Danska konan, handritið skrifa þeir Benedikt Erlingsson og Ólafur Egilsson, en Benedikt leikstýrir. Í þáttunum kynnumst við danskri konu sem hefur sest að í Reykjavík. Hún býr í blokk og á sér merkilega fortíð sem litar nánast alla hennar hegðun. Ditte Jensen uppgötvar að nýju nágrannarnir í Hlíðahverfinu eru ekki fullkomnir og hana langar að hjálpa þeim, en gengur afar langt í viðleitni sinni til að bjarga samferðafólkinu. Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við Benedikt Erlingsson í Lestinni um dönsku konuna, aðdragandann, ferlið og viðtökurnar. Þrír þættir hafa verið sýndir og eru aðgengilegir hér í spilara RÚV en fjórði þáttur er á dagskrá á sunnudag klukkan 21:25. „Ég vil meina að það sé meðvirkur hvati á bak við þetta allt saman,“ segir Benedikt Erlingsson höfundur Dönsku konunnar sem hefur slegið í gegn á RÚV. Hann skrifaði sjónvarpsþætti með það ekki síst í huga að bjóða öllum vinum og fjölskyldu hlutverk. Charlotte Bøving hafnaði hlutverkinu eftir skilnað „Já, þetta var gaman,“ segir Benedikt um ferlið sem tók langan tíma. „Mér finnst gaman að leikstýra og skrifa og þess vegna er ég að því.“ Þegar hann er spurður hvernig hugmyndin kviknaði segir hann að þeir Ólafur hafi báðir svarað þeirri spurningu á margan hátt, og komi alltaf með nýtt svar. „Við segjum ólíka sögu og ég ætla að búa til nýja í dag.“ Fyrrverandi eiginkona Benedikts er Charlotte Bøving leikkona en þau skildu árið 2020. Benedikt skrifaði aðalpersónuna fyrst með það í huga að fá eiginkonuna til að leika hana. „Svo skiljum við en ég held henni áfram í myndinni og býð henni hlutverkið.“ Eftir á að hyggja hafi það verið gæfuleg ákvörðun hjá Charlotte að hafna hlutverkinu eftir skilnað. „En hún hafði vit á að hafna því, sá í gegnum mig sem betur fer. Það var mikil blessun.“ Ætlaði að heila kvíðasárin með því að bjóða öllum hlutverk á skjánum Benedikt segist hafa lofað mörgum vinum sínum í leiklistinni hlutverki á skjánum og sumir hafi spurt hvers vegna þau hafi ekki fengið rullu í kvikmyndum hans tveimur. Hann segist í meðvirkni hafa ákveðið að skrifa þætti um fólk í blokk og hann gæti þannig ráðið marga vini sína til að leika íbúa í blokkinni. Ég vil meina að það sé meðvirkur hvati á bak við þetta allt saman. Litla töfrabarnið mitt vildi leysa öll mín persónulegu vandamál. Öll kvíðasárin mín átti að heila með þessari sjónvarpsseríu. Þar með er komið enn eitt svarið við klassísku spurningunni um uppruna dönsku konunnar. „Danska konan sprettur upp úr meðvirkni, gæti verið fyrirsögnin,“ segir Benedikt glettinn en bætir því við að konan danska sé líka meðvirk sjálf að hluta. Við getum líka sagt: Danska konan er meðvirk. Hún er stjórnlaus í stjórnsemi sem er eitt einkenni meðvirkni, að taka ábyrgð á lífi annarra. Þegar fólk gerir það þá örmagnast það og það fer illa. „Það voru blóðugri og grimmari versjónir af dönsku konunni“ Danska konan er bæði afar afskipta- og stjórnsöm. Hún setur sig inn í vandamál nágranna sinna og bregst við þeim með öfgakenndum hætti til að leysa þau. Ditte hefur sem fyrr segir áður starfað í dönsku leyniþjónustunni og dreymir um að dvelja fjarri blóði og stríði. En hún er þrautþjálfaður hermaður og getur ekki flúið þann hluta af sjálfri sér. Benedikt segir að í meðvirkni felist einmitt einhvers konar undirgefni en líka stjórnsemi. „Í meðvirkninni getur sami einstaklingur verið svo ofsafenginn í báðar áttir í ólíkum aðstæðum.“ Í blokkinni búa erkitýpur á hverri hæð. Í fyrri útgáfum handrits voru fleiri týpur í blokkinni, til dæmis bjó þar aldraður óperusöngvari sem danska konan fór svo illa með að hann fyrirfór sér. Í ferlinu hættu þeir þó við að ganga svo langt. „Það þótti of blóðugt. Það voru blóðugri og grimmari versjónir af dönsku konunni.“ Eins og fram kom í viðtali við Ólaf Egil í síðustu viku gerist danska konan ansi gróf í fyrsta þætti þegar hún drepur heimiliskött nágrannanna. Það hefur komið illa við einhverja áhorfendur og varð til þess að streymisrisinn Netflix hafnaði samstarfi. Íslendingar þekkja og elska grimmar andhetjur Benedikt minnist í þessu samhengi á bókina Save the cat eftir Blake Snyder, sem er fyrir mörgum nokkurs konar biblía í handritaskrifum. Útgangspunkturinn í henni er að það sé góð regla til að skapa samúð með aðalkarakter að láta hann „bjarga ketti“ eða gera eitthvað góðverk svo áhorfandinn haldi með honum þó hann sé jafnvel meingallaður á öðrum sviðum. „Köttur er merkilegt dýr því hann er ekki saklaus og ekki sekur. Einhvers staðar er hann svipaður manninum að því leyti. Sá sem er vondur við dýr og kött sérstaklega eigum við mjög auðvelt með, og eðlilega, að afskrifa.“ Það var því nokkur áhætta að halda grimmdarverkinu inni og láta hana ganga svo langt að drepa köttinn sem er svo elskaður af börnunum í blokkinni. En Benedikt minnir á að margar af ástsælustu persónum Íslandssögunnar hafi framið verri voðaverk en samt skapað sér sess í hjörtum okkar. „Þetta er sagan um andhetjuna sem við Íslendingar ættum að þekkja mætavel, þetta er Egill Skallagrímsson, þetta er Grettir Ásmundarson. Þetta eru andhetjur sem fremja hræðileg ofbeldisverk en við fylgjum þeim samt svo þessi kenning gengur ekki upp að mínu áliti,“ segir hann. Að því sögðu var hugmyndin að fara alveg að línunni til að gera áhorfendur hrædda, skelfingu lostna. Við eigum að vera hrædd við dönsku konuna en samt fasíneruð af henni. Það er hugmyndin. Það er þó ekki alltaf erfitt að vera sammála afstöðu hennar þó að viðbrögð hennar fari yfir öll mörk. „Ég skrifa undir skoðanir hennar að miklu leyti en ekki hvað hún gerir, hún fer ansi langt. Hún fer yfir öll mörk,“ segir Benedikt. Kvenkynsgerendur þurfi að vera með áfall á bakinu Það má teljast ljóst að hún er með tráma eftir að hafa tekið þátt í stríðum og séð mikið blóð. Benedikt segir að hann efist sjálfur um að hegðun manna þurfi að stimpla á áföll í sama mæli og sé gert. „Ég er farinn að efast meira og meira um þá sögu en ég beygi mig undir hana þarna. Við búum til einhverjar réttlætingar, sérstaklega ef konan er gerandi þarf hún að hafa tráma.“ Upprunaleg hugmynd Benedikts var að gefa dönsku konunni enga afsökun fyrir ofstækinu. Í þáttunum má þó sjá hvernig hún hálfpartinn er í leiðslu þegar hún gengur sem lengst, eins og hún hafi ekki beint stjórn á sér. „Niðurstaðan er samt, til að halda sympatíu áhorfandans, þá gefum við til kynna að hún detti út, missi sig. Það sé flassbakk og tráma.“ Trine vildi halda sympatísku línunni lifandi Upprunalega var danska konan herskárri en Ólafur vildi milda hana og Trine var sammála. „Við getum sagt að Trine hafi gengið í lið með Óla varðandi að halda hinni sympatísku línu lifandi. Hún hafði skoðanir á því í handritinu en í tökunum beinlínis gerði hún alltaf sympatíska versjón,“ segir Benedikt sem áttaði sig á því í eftirvinnslunni að þær senur sem Trine var mildari í túlkun sinni hefðu að lokum virkað best. „Það var oft á tíðum það sem ég valdi þannig að hún hafði vit fyrir mér þar. Leikkona eins og hún verður meðsmiður og arkitekt.“ „Ég vil meina að það sé meðvirkur hvati á bak við þetta allt saman,“ segir Benedikt Erlingsson höfundur Dönsku konunnar sem hefur slegið í gegn á RÚV. Hann skrifaði sjónvarpsþætti með það ekki síst í huga að bjóða öllum vinum og fjölskyldu hlutverk.