Mótmælin í Íran hafa nú staðið í rúman hálfan mánuð og talið að þúsundir mótmælenda hafi verið drepnir. Samstöðumótmælendur hafa komið saman víða í Evrópu líkt og í London, París, Barcelona, Berlín, Mílanó og einnig í Reykjavík. Á mörgum þessara mótmæla hafa mótmælendur veifað tveimur ólíkum írönskum fánum. Í fréttaskýringu ástralska ríkisútvarpsins, ABC , er munurinn á þessum tveimur fánum útskýrður. Opinberi íranski fáninn er þrílitur, með láréttum þremur línum, með textanum Guð er góður og rauðu tákni í miðjunni. Margir mótmælendur hafa hins vegar veifað sams konar fána sem er með gylltu ljóni og sól í miðjunni í stað rauða táknsins. Þessir fánar hafa ólíka merkingu meðal mótmælenda sem helgast ekki síst af þeirri ólíku sögulegu tengingu sem fánarnir hafa. Marglaga skilaboð Íranski fáninn með gylltu ljóni og sól í miðjunni er gamli fáni Írans og táknaði Pahlavi-konungsdæmið. Þessi fáni var opinber fáni Írans fyrir írönsku byltinguna árið 1979. Þegar Ayatollah Ruhollah Khomeini komst til valda eftir byltinguna var þessi fáni bannaður og ljóninu og sólinni skipt út fyrir rautt tákn í miðju fánans. Síðan í byltingunni hefur bannaða fána konungsdæmisins oft verið veifað og flaggað af þeim sem eru andsnúin klerkastjórninni í Íran og stjórnvöldum þar, bæði innan lands og utan. Þau sem veifa þessum fána eru þó ekki endilega að kalla eftir því að konungsdæmið verði endurreist. Þessi fáni er frekar stuðningstákn við Reza Pahlavi krónprins og stjórnarandstæðinginn Maryam Rajavi. Þau eru þó bæði umdeild í Íran og ekki endilega táknmynd fyrir framtíðarlýðræði í Íran. Hópar mótmælenda eru einnig misjafnir og ekki þar með sagt að öll sem eru andsnúin núverandi stjórnvöldum í Íran veifi þessum fána. Opinberi fáni Írans sést þó einnig á mótmælum en þá er mikilvægt að horfa til þess hvert samhengið er hverju sinni. Þannig gæti opinbera fánanum verið veifað þegar mótmælendur mótmæla árásum Ísraela eða Bandaríkjanna á Íran frekar en að það sé stuðningstákn við stjórnvöld. Ef opinbera fánanum er hins vegar veifað innan um til dæmis fána Hezbollah sem nýtur stuðnings íranskra stjórnvalda, þá má ætla að sá sem veifar fánanum styðji írönsk stjórnvöld. Fjölmenn samfélög Írana utan landsins Mótmælin í Íran eru þau umfangsmestu síðan í írönsku byltingunni árið 1979. Síðan þá hefur mikill fjöldi Írana flúið land sitt og fest rætur í öðrum löndum. Þannig eru stór samfélög Írana utan heimalandsins, til dæmis í Evrópu þar sem talið er að allt að hálf milljón Írana sé búsett samkvæmt umfjöllun Guardian um Írana búsetta utan Írans. Á Íslandi búa nú 370 Íranir samkvæmt tölum Hagstofunnar 1. janúar 2025.